Skoðun

Börn á Íslandi og börn á heimsvísu

Bergsteinn Jónsson og Sigríður Víðis Jónsdóttir skrifar
Fyrir rúmum aldarfjórðungi samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sáttmála sem markaði mikilvæg tímamót fyrir öll börn. Þá varð Barnasáttmálinn til. Enginn mannréttindasáttmáli hefur notið viðlíka stuðnings hjá alþjóðasamfélaginu – þetta er útbreiddasti mannréttindasamningur í heimi og tryggir öllum börnum sömu mannréttindi.

Verkefnið sem Barnasáttmálinn gefur okkur öllum er margslungið. Þeim ríkjum sem hafa fullgilt sáttmálann ber m.a. skylda til að tryggja að hagsmunir barna séu meginforsendur í öllum málum er varða börn og koma í veg fyrir mismunun meðal barna.

Ný skýrsla um börn á Íslandi kynnt í dag

Í dag kynnir UNICEF á Íslandi nýja skýrslu um börn sem líða efnislegan skort hér á landi. Niðurstöður hennar sýna að fjöldi barna á Íslandi stendur höllum fæti. Með skýrslunni fer UNICEF á Íslandi fram á það við stjórnvöld að þau framkvæmi árlega greiningu á efnislegum skorti meðal barna hér á landi og setji sér skýr markmið um að draga úr skortinum. Við getum öll verið sammála um að ólíðandi sé að börn á Íslandi líði skort, sérstaklega með tilliti til þess að við erum eitt af efnamestu ríkjum heims.

Á sama tíma og við beinum sjónum okkar að þeim börnum sem búa við bágan kost hér á landi megum við ekki gleyma að á heimsvísu eru fleiri börn á flótta nú en hafa verið síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Börn búa á stríðssvæðum og hafa hrökklast út í óvissuna. Önnur búa við sárafátækt, sofna hungruð og vakna hungruð, hafa ekki aðgang að hreinu vatni eða látast af sjúkdómum sem auðvelt er að koma í veg fyrir.

Út frá Barnasáttmálanum er ábyrgð okkar mikil sem eitt af mest velmegandi ríkjum heims. Bæði gagnvart börnum sem búa á Íslandi og þeim sem búa við bágar aðstæður út af stríðsátökum, fátækt og öðru. Ábyrgð okkar gagnvart börnum á Íslandi útilokar aldrei nauðsyn þess að berjast fyrir réttindum barna á heimsvísu. Við getum og eigum að gera bæði í einu.

Öll börn eiga réttindi, öll börn skipta máli.




Skoðun

Sjá meira


×