Erlent

Náðaði konu sem myrti ofbeldisfullan eiginmann

Samúel Karl Ólason skrifar
Jacqueline Sauvage var dæmd í tíu ára fangelsi fyrir að myrða eiginmann sinn.
Jacqueline Sauvage var dæmd í tíu ára fangelsi fyrir að myrða eiginmann sinn. Vísir/EPA
Francois Hollande, forseti Frakklands, náðaði í dag konu sem hafði verið dæmd í tíu ára fangelsi fyrir að myrða eiginmann sinn. Maðurinn hafði misþyrmt henni í áratugi. Það að forsetinn veiti fólki náðun er mjög sjaldgæft í Frakklandi en rúmlega 400 þúsund manns höfðu sett nafn sitt á undirskriftalista þar sem farið var fram á að henni yrði sleppt.

Í tilkynningu frá forsetanum segir að Hollande hafi viljað koma Jacqueline Sauvage aftur til fjölskyldu sinnar eins fljótt og auðið væri. Forsetinn fundaði með tveimur dætrum Sauvage og lögfræðingum hennar á föstudaginn.

Hún var gift manni sínum í 47 ár en segir hann hafa barið og nauðgað sér og dætrum þeirra auk þess sem hann misþyrmdi syni þeirra. Þann tíunda september 2012, degi eftir að sonur þeirra hengdi sig skaut Sauvage eiginmann sinn þrisvar sinnum í bakið með riffli. Ein dóttir þeirra lýsti dauða hans sem „létti“. Hann hafði nauðgað henni þegar hún var 16 ára gömul.

Hún var dæmd í tíu ára fangelsi í október 2014 og var sá dómur staðfestur í desember í fyrra. 

Eins og áður hefur komið fram er sjaldgæft að forseti Frakklands veiti dæmdu fólki náðun. Francois Hollande hefur einungis einu sinni gert það áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×