Handbolti

Kristján fagnaði sigri á móti Íslendingaliði | 100 prósent skotnýting Tandra ekki nóg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tandri Már Konráðsson.
Tandri Már Konráðsson. Vísir/Anton
Kristján Andrésson stýrði Eskilstuna Guif til fjögurra marka sigurs á móti Ricoh í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Eskilstuna Guif vann leikinnn 29-25 eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13.

Tandri Már Konráðsson skoraði fimm mörk fyrir Ricoh og Magnús Óli Magnússon var með tvö mörk en það dugði skammt.  

Tandri Már skoraði fjórum af fimm mörkum sínum í seinni hálfleiknum en hann nýtti öll skotin sín í leiknum. Magnús Óli gaf þrjár stoðsendingar og Tandri var með tvær stoðsendingar.

Eskilstuna Guif fagnaði þarna sínum fjórða sigri í síðustu fimm leikjum en þetta var fyrsti leikur liðanna eftir að deildin byrjaði aftur eftir frí vegna Evrópukeppninnar í Póllandi.

Kristján Andrésson er að koma sínum mönnum í Eskilstuna Guif í gang eftir mjög erfiðan kafla í okótber og nóvember.

Guif-liðið er í hörku baráttu um áttunda og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina en liðið komst upp fyrir bæði Hammarby og Lugi með þessum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×