„Langan í Vestmannaeyjahöfn er stórkostlegt útivistarsvæði,“ segir Árni í samtali við Vísi. Þar hafi á árum áður verið baðströnd og sandbrekka en þar sé nú grasbrekka.
„Höfnin varð skítug á síðustu öld vegna þess að það fór skólp frá vinnslustöð í höfnina. Nú er það löngu breytt og hún orðin tær og fín aftur.“
Tillagan var tekin fyrir á fundi Umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja á mánudag. Óska Árni og félagar eftir að ráðið hrindi af stað skipulagslegri úttekt á málinu.

Þá felur ráðið skipulagsfulltrúa og framkvæmdastjóra sviðsins að ræða við bréfaritara og taka í framhaldi saman minnisblað um þá valkosti sem mögulegir eru varðandi bætt aðgengi að Löngu.
Árni segir að hugmyndin um göngin sé ekki ný af nálinni en nú sé vonandi loksins komið að því að framkvæma hana. Heimakletturinn er móbergsstapi og minnir Árni á að göngin séu aðeins sjötíu metra löng og „eins og ein lundahola í viðbót í Heimaklett.“
Hann segir grófa hugmynd um kostnað liggja fyrir en vildi ekki deila þeim upplýsingum með blaðamanni að svo stöddu. Greinilegt er á Árna að hann er mjög spenntur fyrir því að aðgengi undir Löngu verði bætt.
„Á góðum dögum er Langan tvöföld Mallorca.“
Aðspurður hvort hann færi fyrir stórum hópi fólks svaraði Árni: „Þetta er hópur.“