Erlent

Elsti fanginn á dauðadeild í Georgíu-ríki líflátinn

Atli Ísleifsson skrifar
Brandon Astor Jones var elsti fanginn á dauðadeild í Georgíu-ríki. Hann var tekinn af lífi í fangelsi í borginni Jackson skömmu eftir miðnætti í nótt.
Brandon Astor Jones var elsti fanginn á dauðadeild í Georgíu-ríki. Hann var tekinn af lífi í fangelsi í borginni Jackson skömmu eftir miðnætti í nótt. Vísir/Getty/AFP
Hinn 72 ára Brandon Astor Jones var tekinn af lífi með eitursprautu í Georgíu í gær. Jones var dæmdur til dauða fyrir að hafa skotið verslunareiganda til bana í ráni fyrirtæpum fjörutíu árum.

Jones var elsti fanginn á dauðadeild í Georgíu-ríki og tekinn af lífi skömmu eftir miðnætti í nótt, í fangelsi í borginni Jackson.

Annar maðurinn sem er líflátinn vegna morðsins

Jones er annar maðurinn sem tekinn er af lífi vegna morðsins á hinum 35 ára Roger Tackett í verslun í úthverfi Atlanta í júní 1979. Samverkamaður Jones, Van Roosevelt Solomon, var tekinn af lífi vegna morðsins árið 1985.

Í frétt Sky News segir að Jones hafi varið mörgum árum í að berjast gegn dómnum. Alríkisdómstóll breytti dómnum í lífstíðarfangelsi árið 1989, á þeim grundvelli að dómari hafi á sínum tíma heimilað kviðdómendum að hafa biblíu inni í fundarherbergi sínu og slíkt hafi mögulega haft áhrif á niðurstöðuna. Annar dómstóll breytti svo dómnum aftur í dauðadóm árið 1997.

Hafnaði „hinstu máltíðinni“

Jones hafnaði því að neyta „hinstu máltíðarinnar“, og fékk þess í stað máltíð af matseðli fangelsisins.

Aftökunni var frestað um nærri sex tíma vegna röð áfrýjana lögmanna hans.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði beiðni Jones um frestun á aftöku seint á þriðjudagskvöld. Hæstiréttur í Georgíu og fangelsismálayfirvöld höfðu áður hafnað beiðni hans um að dómnum yrði breytt í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn.

Fimmta aftakan það sem af er ári

Aftakan í nótt er sú fimmta í Bandaríkjunum á árinu, og önnur tveggja sem fyrirhuguð er í Georgíu í þessum mánuði. Fangar í Texas, Alabama og Flódída voru teknir af lífi í janúarmánuði.

28 dauðadæmdir menn voru líflátnir í bandarískum fangelsum á síðasta ári og höfðu þeir ekki verið færri frá árinu 1999. Metárið 1999 voru 98 fangar teknir af lífi í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×