Skoðun

Hvers vegna eru ekki endurtektarpróf í sálfræði?

S. Ási Þórðarson og Margrét Arna Viktorsdóttir skrifar
Það hafa eflaust margir spurt sig að þessu. Ef svo óheppilega vill til að nemandi nái ekki lágmarkseinkunn á lokaprófi getur það haft í för með sér margvíslegar neikvæðar afleiðingar. Falli nemandi á prófi er deildum Háskólans heimilt að halda sérstök endurtektarpróf sem eru tekin samtímis sjúkraprófum. Sálfræðideildin nýtir sér ekki þessa heimild. Falli nemandi í prófi í sálfræðideild þarf hann að sitja námskeiðið aftur ári síðar, þetta seinkar útskrift um heilt ár.

Þessi seinkun getur reynst dýrkeypt fyrir stúdentinn og samfélagið sem heild. Til dæmis myndi fall í tölfræði á fyrsta misseri hafa það í för með sér að lágmarksnámsframvindu sem þarf til þess að fá greidd út námslán telst ekki lokið. Hvað veldur því að sálfræðideildin er sér á báti þegar kemur að því að bjóða upp á endurtekt lokaprófa? Ástæðan er einfaldlega skortur á fjármagni til sálfræðideildarinnar.

Árið 1999 var tekið í notkun reiknilíkan sem segir til um hve mikið fjármagn Háskóli Íslands fær fyrir hvern nemanda sem skráður er í skólann. Misjafnlega er greitt með nemendum eftir því hvað þeir eru að læra. Reiknilíkanið gerir ráð fyrir hæstri fjárveitingu til heilbrigðisvísindasviðs og lægstri til félagsvísindasviðs og hugvísindasviðs.  

Árið 2011 var sálfræðideildin færð frá félagsvísindasviði yfir á heilbrigðisvísindasvið í ljósi þess að sálfræði á betur heima þar. Við flutning á nýtt svið hefði verið rétt að uppfæra fjármagnsreiknilíkanið. Þetta hefur ekki verið gert og hefur deildin lengi staðið í stappi við stjórnvöld um að fá leiðréttingu á þessu. Þetta er langt því frá það eina sem er að líkaninu. Margar deildir innan heilbrigðisvísindasviðs eru reknar með tapi ár eftir ár. Hugvísindasvið líður einnig skort vegna þess og hefur til að mynda þurft að leggja niður kennslu í norsku og finnsku.

Ljóst er að Stúdentaráð þarf að þrýsta á stjórnvöld að uppfæra þetta löngu úrelta líkan til þess að háskólinn geti haldið áfram að útskrifa framúrskarandi nemendur. Röskva vill að Stúdentaráð láti í sér heyra hvað varðar fjárveitingar til háskólans.

Greinarhöfundar vilja minna kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands sem fara fram 3.-4. febrúar 2016.




Skoðun

Sjá meira


×