Erlent

Cameron fær neyðarhemil frá ESB

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Donald Tusk og David Cameron á sunnudaginn var fyrir utan bústað forsætisráðherrans að Downing-stræti 10 í London.
Donald Tusk og David Cameron á sunnudaginn var fyrir utan bústað forsætisráðherrans að Downing-stræti 10 í London. vísir/EPA
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, kynnti í gær viðbrögð við kröfum Breta, sem vilja ná fram breytingum á Evrópusambandinu.

Tusk heimsótti á sunnudaginn David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sem hefur lofað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi þegar búið verður að semja upp á nýtt við Evrópusambandið. Bretar geti þá kosið um það hvort segja eigi upp aðildarsamningnum eða fallast á breyttan samning.

Tusk býður Cameron meðal annars upp á „neyðarhemil” fyrir Bretland, sem þýddi að Bretland getur takmarkað atvinnutengdar bótagreiðslur til ríkisborgara annarra ESB-landa, sem búsettir eru í Bretlandi. Takmarkanirnar mega gilda í fjögur ár.

Cameron hafði farið fram á meira, nefnilega að mega fella slíkar bótagreiðslur alveg niður í fjögur ár.

Tusk segist hafa gengið „verulega langt” til að koma til móts við óskir Camerons. Hins vegar gæti hann ekki gengið lengra en meginreglur Evrópusambandsins leyfa.

„Þetta hefur verið erfitt ferli og enn eiga erfiðar samningaviðræður eftir að fara fram,” sagði Tusk í bréfi til leiðtoga Evrópusambandsríkjanna, þar sem hann kynnti tillögurnar.

Margt er óljóst um útfærslur á tilboði Tusks og Cameron segir að vinna þurfi áfram í þessu fyrir leiðtogafundinn 18. og 19. febrúar næstkomandi, þar sem leiðtogar Evrópusambandsríkjanna taka þessi mál til skoðunar.

Breskir andstæðingar Evrópusambandsins segja þarna ekki gengið nærri nógu langt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×