Erlent

Tyrkir kenna Kúrdum um árásina

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá árásinni í Ankara.
Frá árásinni í Ankara. Nordicphotos/AFP
„Það hefur komið í ljós að meðlimur YPG, sem kom frá Sýrlandi með öðrum meðlimum þessara hryðjuverkasamtaka, stóð að árásinni,“ sagði forsætisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, í gær um bílsprengju sem felldi 28 í höfuðborg Tyrklands, Ankara, á miðvikudag.

YPG er herskár armur verkamannaflokks Kúrda í Sýrlandi (PYD) og að sögn Tyrkja nátengdur hinum útlæga verkamannaflokki Kúrda í Tyrklandi (PKK).

Tyrkir svöruðu árásunum á Ankara í gær með loftárásum á búðir PKK í norðurhluta Írak.

Einn leiðtoga PKK, Cemil Bayik, sagði hins vegar í gær að PKK hefði ekki hugmynd um hver hefði staðið á bak við árásina.

„Við vitum að það er fólk sem hefur framið slíkar árásir áður til að hefna fyrir fjöldamorðin í Kúrdistan,“ sagði Bayik í viðtali við fjölmiðil PKK, Firat.

Þá varð önnur árás í Tyrklandi í gær. Sex manns féllu og einn særðist alvarlega í sprengjuárás sem gerð var á lest herbíla í Diyarbakir í suðausturhluta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×