Erlent

Noregur á að fylgja evrópsku ferli

Óli Kristján Ármannsson skrifar
PFOA er eitt af þeim efnum sem notað er við framleiðslu á tefloni, en það er efni sem notað er til að húða potta og pönnur til að matur festist þar síður.
PFOA er eitt af þeim efnum sem notað er við framleiðslu á tefloni, en það er efni sem notað er til að húða potta og pönnur til að matur festist þar síður.
Einhliða bann Noregs á notkun gerviefnisins PFOA gæti, að mati ESA, eftirlitsstofnunar ESA, grafið undan alþjóðlegu samstarfi um að koma í veg fyrir notkun efna sem skaðleg eru umhverfinu.

Í tilkynningu ESA segir að Noregur verði að fylgja verkferlum, sem samþykktir hafi verið á vettvangi Evrópulanda, til að eiga við hættuleg efni. ESA hafi því ákveðið að stefna Noregi fyrir EFTA-dómstólinn vegna málsins.

„Sameiginlegt regluverk, sem hefur að baki sér öll 31 ríki EES, hefur meiri áhrif á heilbrigði og umhverfi en fyrirkomulag einstakra þjóða. Til þess að ná strangari stjórn á hættulegum efnum verður Noregur að fylgja vinnuferlum sem sagt er fyrir um í Samningnum um evrópska efnahagssvæðið,“ er haft eftir Sven Erik Svedman, forseta ESA.

Reglugerð sem kennd er við REACH er sögð miða að því að tryggja mikla vörn gegn hættulegum efnum, bæði fyrir einstaklinga og umhverfi. Þyki hætta af einhverju efni fyrir heilsu fólks eða umhverfi óásættanleg verði að fylgja ferlum reglugerðarinnar til að hamla notkun þess. Túlkun ESA á REACH-reglugerðinni sé að Noregur megi ekki einhliða banna notkun á PFOA.

„Vísun málsins til EFTA dómstólsins er síðasta skrefið í samningsbrotaferli gegn EFTA-ríki,“ segir í tilkynningu ESA. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×