Skoðun

Samfélagið og samfélagsmiðlar

Hilma Rós Ómarsdóttir skrifar
Umfjöllun Kastljóss í tengslum við lífstílsblogg og samfélgasmiðla hefur brunnið á mörgum síðan hann fór í loftið þriðjudagskvöldið 16. febrúar. Hún sneri að heimi lífstílsbloggara og hvernig þeir koma efni sínu á framfæri í gegnum hina ýmsu samfélagsmiðla.

Umfjöllunin vakti mikla reiði meðal bloggara þar sem þeim fannst komið aftan að sér með tengslum við eintóma útlitsdýrkun og átraskanir. Ekki er hægt að neita því að betur hefði verið hægt að koma að því umfjöllun um þetta mikilvæga málefni og að leggja það til að allir lífstílsbloggarar þjáist af átröskun eða útlitsdýrkun er að sjálfsögðu ekki réttlætanlegt. Hinsvegar er skiptir máli að opna umræðuna um breytta tíma með komu samfélagsmiðla og aukinni íhlutun í heimi lífstílsbloggara. Það sem liggur eftir að ekki var fjallað um það sem mestu máli skiptir í tengslum við þennan nýja veruleika sem við lifum í á tækniöldinni og það er að ungt fólk og þá sérstaklega ungar stelpur eru viðkvæmar fyrir því að komast daglega í snertingu við efni sem ýtir undir aukna neyslu og fullkomið útlit. Þessi veruleiki getur haft áhrif á sjálfsálit og neysluvenjur ungs áhrifagjarns fólks. 

Á sjöunda áratug síðustu aldar kom fram svo nefnd ræktunarkenning (e. cultivation theory) sem sneri að því hvernig sjónvarpsáhorf getur mótað heimssýn einstaklinga þar sem viðkomandi fer að telja þau félagslegu norm sem þar koma fram vera eðlileg. Auðvelt er að yfirfæra kenninguna yfir á samfélagsmiðla og blogg þar sem fylgjendur fara að trúa því að eðlilegt sé að eiga allar þær vörur sem talað er um eða búa í hinum fullkomna heimi sem settur er þar fram. Sjálfsálit ungra kvenna er sérstaklega viðkvæmt og er aukinn pressa um að eiga réttu förðunarvörunar eða vera með hinn fullkomna líkama líkleg til að bæta gráu ofan á svart.

Mikilvægt er að samfélagið haldi uppi samræðum um þetta málefni og að ungu fólki sé kennt að horfa á þennan heim með gagnrýnum augum til að draga úr neikvæðum áhrifum. Það er ekki jákvæð þróun ef ungir einstaklingar fara að finna fyrir aukinni þörf á neyslu á vörum sem ekki eru nauðsynlegar fyrir daglegt líf sem og aukinni pressu að lifa fullkomnum lífstíl. Það er skref í rétta átt ef einstaklingar sem opinbera líf sitt á samfélagsmiðlum líti aðeins í eigin barm og geri sér grein fyrir því að þeir eru í ábyrgðarstöðu gagnvart uppkomandi kynslóð. Það er ekki hægt að fela sig á bak við það að fólk ráði hvort það fylgist með efninu sem þau setja fram. Sýnum ábyrgð og verum meðvituð. Það vill enginn að ungt fólk búi við þær hugmyndir að það þurfi sérstakt útlit eða sérstakar neyslu vörur til að líða vel og hafa hátt sjálfsálit.

 




Skoðun

Sjá meira


×