Skoðun

Um málefni hælisleitenda

Gunnhildur Árnadóttir skrifar
Málefni flóttamanna sem og hælisleitenda á íslandi hafa mikið verið í umræðunni upp á síðkastið. Aðallega hefur þessi umræða einkennst af háværum ramakveinum almennings í fréttamiðlum, þegar ákvörðun hefur verið tekin um að vísa hælisleitendum úr landi. Oftar en ekki verður útkoman sú, að Útlendingastofnun snýr ákvörðun sinni við og leyfir viðkomandi að dvelja á íslandi. Allt er það gott og blessað – öllum getur orðið á, og mikilvægt að viðkomandi (í þessu tilfelli Útlendingastofnun), sjái villu síns vegar og leitist við að leiðrétta það sem miður hefur farið. En þarf þetta að gerast svona oft? Ætti ekki að vera nóg að almenningur hrópi upp yfir sig einu sinni, kannski tvisvar, áður en íslensk yfirvöld fara að endurskoða ákvarðanatöku í málum hælisleitenda? Fólk sem hefur skýlausan rétt á hæli á mannúðargrundvelli er sent úr landi í skjóli nætur. Vel má færa fyrir því rök að hælisleitendur frá löndum eins og Albaníu og Ghana eigi ekki rétt á vernd á grundvelli flóttamannalaga, en þó má í mörgum tilfellum færa rök fyrir vernd á grundvelli mannúðarástæðna, þegar um er að ræða samkynhneigða, fólk sem sætir ofsóknum í heimalandi eða alvarlega veika einstaklinga.

Útlendingastofnun hefur það fyrir venju, að bera fyrir sig Dyflinnarreglugerðinni en hún heimilar íslenskum stjórnvöldum að senda hælisleitendur til baka til þess ríkis sem var þeirra fyrsti viðkomustaður í Evrópu. Það hefur þó lengi verið sagt að það að skýla sér á bakvið Dyflinnarreglugerðina dugi hreinlega ekki, eins og ástandið er í heiminum í dag. Þau lönd sem taka við hvað mestum fjölda hælisleitenda hafa hreinlega ekki  undan, sem verður til þess að bæði skrásetning og málsmeðferð hælisleitenda þar er ekki viðunandi. Aðbúnaður hælisleitenda í þessum löndum hefur einnig verið harðlega gagnrýndur og sagður ekki mannsæmandi.

Í nýjustu Dyflinnarreglugerðinni er tekið fram að ekki megi senda hælisleitanda aftur til ríkis þar sem hætta er á að hann sæti ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð og hefur til að mynda bann verið lagt við flutningum hælisleitenda til Grikklands næstkomandi tvö ár. Í svari Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi þann 17. september síðastliðinn kemur fram að:

„Ekki kemur til greina að taka Dyflinnarreglugerðina úr sambandi og hætta að senda hælisleitendur sem hingað til lands koma, til baka til fyrsta viðkomulands þeirra innan Schengen-svæðisins. Hins vegar verða hælisleitendur sem hingað koma ekki sendir til baka til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands, þar eð þau eru talin ótrygg lönd.“ Hefur ástandið á í þessum þremur löndum eitthvað batnað síðan þessi orð voru mælt?

Stjórnvöld á íslandi verða, að mínu mati, að fara í gagngera endurskoðun reglna um hælisleitendur og málsmeðferð þeirra. Það er okkur til skammar að skýla okkur á bakvið reglugerðir sem ekki virka, til þess eins að komast hjá því að veita einstaklingum hæli, sem virkilega þurfa á því að halda.

Íslenska þjóðin á ekki að þurfa að vera málsvari hælisleitenda í fréttamiðlum, eftir að brottvísanir hafa verið ákveðnar. Til þess höfum við hæfa sérfræðinga. Útlendingastofnun þarf að vera sjálfri sér samkvæm og fylgja ákvörðunum sínum þegar þær hafa verið teknar – en fyrst og fremst þurfa ákvarðanirnar að vera teknar á réttum og mannúðlegum grundvelli.




Skoðun

Sjá meira


×