Menning

Öll þessi andlit í Drekkingarhyl

Steinunn J. Kristjánsdóttir skrifar
Í grein Steinunnar J. Kristjánsdóttur kemur fram að Þórdís Halldórsdóttir frá Sólheimum í Skagafirði var fyrsta konan sem var drekkt á Þingvöllum.
Í grein Steinunnar J. Kristjánsdóttur kemur fram að Þórdís Halldórsdóttir frá Sólheimum í Skagafirði var fyrsta konan sem var drekkt á Þingvöllum. Visir/Vilhelm
Við bakkann ég sat um sólarlagsbil

Ég sá öll þessi andlit í Drekkingarhyl

Ég sá öll þessi andlit, þrútin og blá

Iðan bar þau til mín og síðan frá



Enn á ný slær Bubbi Morthens í gegn með dægurlagi um réttindabaráttu þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. Að þessu sinni er það ásamt Spaðadrottningunum með laginu „18 konur“ af samnefndri plötu. Þar gerir hann að yrkisefni konurnar sem drekkt var í Drekkingarhyl á Þingvöllum eftir að dauðarefsingar vegna hjúskaparbrota voru leiddar í lög með Stóradómi á Alþingi árið 1564.

Agnes og Friðrik

Margir aðdáendur Bubba muna eflaust einnig vel eftir því þegar hann fjallaði í öðru dægurlagi um örlög Agnesar og Friðriks en þau voru tekin af lífi síðust Íslendinga við Vatnsdalshóla í Austur-Húnavatnssýslu árið 1830. Sakamál fyrri alda verðskulda svo sannarlega athygli, ekki síst vegna þess að sum þeirra kunna nefnilega enn að vera óleyst, eru svonefnd „cold cases“, þrátt fyrir að dómar hafi verið kveðnir upp eins og gert var í einu þekktasta afbrotamáli síðari ára, Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Dæmi eru um að hæpnar játningar hafi ráðið úrslitum þegar konum var drekkt fyrir hjúskaparbrot fyrr á tíð og oftar en ekki var ástin talin kveikjan að baki þeim. En var það endilega svo? Þannig kveður Bubbi:

Konur sem kunnu að elska heitt

Trúðu að hann og hún yrðu eitt

Hann kunni að spinna kaldan vef

Hún spurði aldrei, ástin, hvað ef

Steinunn J. Kristjánsdóttir prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.Visir/Anton Brink
Stóridómur

Kristin kirkja hefur raunar allt frá upphafi reynt að koma böndum á hjúskap fólks en með henni komu til sögunnar ítarlegar reglugerðir um skírlífi, einkvæni milli karls og konu, og bann við barneignum ógiftra eða skyldra einstaklinga. Á kaþólskum tíma var það fyrst og fremst Guð sem ákvarðaði refsingar fyrir brot á reglugerðum kirkjunnar og voru þau einkum afplánuð í hreinsunareldinum – eftir dauðann. Lifði miðaldafólk þannig í stöðugum ótta við það hversu kvalafullur hann yrði, ef ske kynni að drýgðar syndir væru ekki fyrirgefnar.

Þegar kaþólsk trú var bönnuð við siðaskiptin færðist þetta refsivald frá hreinsunareldi Guðs í hendur mannanna, í anda kenninga Lúthers. Voru það umboðsmenn konungs, sýslumennirnir, sem fengu það hlutverk að ákvarða refsingar og fylgja þeim eftir. Ári eftir að Stóridómur, sem kvað á um dauðarefsingar fyrir ­hjúskaparbrot, var leiddur í lög á Alþingi fór fyrsta aftakan fram hér á landi og síðan nánast ár hvert til ársins 1762. Dauðarefsingar tíðkuðust þó áfram fyrir önnur brot, allt til ársins 1830. Algengustu brotin á tímum Stóradóms voru barneignir ógifts, einkum ungs fólks, sem kann að hafa verið beitt órétti án þess að ástin hafi komið þar við sögu.[1] Um það er lítið vitað. Bubbi heldur áfram:

Konum sem áttu sér enga vörn

Var drekkt fyrir það eitt að eignast börn

Ég starði ofan í ólguna og sá

Andlit kvennanna fljóta hjá

Ég nam í vindinum kvennanna vein

Kannski í dýpinu eru þeirra bein

Nafnið var Þórdís sem fyrst hér fór

í svelginn meðan ýlfraði prestanna kór

Þórdís


Fyrsta konan sem drekkt var á Þingvöllum var einmitt Þórdís Halldórsdóttir frá Sólheimum í Skagafirði. Hún var dæmd sek um að bera ljúgvitni um að hún væri ekki ófrísk og hafa svarið sig hreina mey. Þá neitaði hún að segja til föðurins en viðurkenndi að lokum að mágur hennar væri faðirinn, enda þótt það væri aldrei sannað. Játningar voru gjarnan kallaðar fram með pyntingartæki, eins konar fingraklemmu, eins og í tilfelli Þórdísar, en oft var húðstrýkingu beitt í sama skyni. Var Þórdís dæmd til drekkingar fyrir áðurnefndar sakir, þrátt fyrir mótmæli bræðra hennar og annarra ættingja. Dómnum var ekki framfylgt fyrr en að tíu árum liðnum.[2]

Systkinin Sunnefa og Jón

Saga Þórdísar er því miður ekki einsdæmi, því sömu sögu er að segja af mörgum öðrum konum sem stjakað var í grjótfylltum pokum ofan í ískaldan svelginn eftir að þær höfðu setið í varðhaldi svo árum skipti hjá sýslumönnum víða um land. Æði oft kom fyrir að þær kenndu föður sínum eða bræðrum börnin sem komu undir, án þess að fyrir því lægi nokkur sönnun. Nauðganir voru ekki taldar til málsbóta í Stóradómi, hafi þær eftir allt verið ástæða þungunarinnar.[3] Mál vinnukonunnar Sunnefu Jónsdóttur frá Geitavík í Borgarfirði eystra er eitt þeirra mála sem enn ríkir óvissa um þegar litið er til játningar í því. Árið 1739 ól hún – þá aðeins 16 ára gömul – barn sem hún í fyrstunni kenndi manni á næsta bæ, Erlendi. Þegar hann neitaði sök, talaði sóknarpresturinn um fyrir henni og fékk hana á endanum til að falla frá ásökunum sínum. Sór hún eftir fjögurra daga yfirheyrslur að barnið ætti fjórtán ára gamall bróðir hennar, Jón.[4]

Voru systkinin umsvifalaust flutt í gæsluvarðhald til Jens Wíum sýslumanns á Skriðuklaustri í Fljótsdal og voru þau dæmd samkvæmt Stóradómi til dauða á héraðsþingi á Bessastöðum í Fljótsdal ári síðar. Jón skyldi hálshöggvinn en Sunnefu drekkt, líkt og hefð var fyrir. Þegar Jens sýslumaður lést um þetta leyti tók Hans sonur hans við embættinu og rekstri þessa máls, rétt rúmlega tvítugur að aldri. Þá átti eftir að staðfesta dóminn yfir sakborningunum á lögréttu Alþingis syðra en gjörningurinn átti að fara fram í júlí 1741, að þeim viðstöddum. Sunnefa forfallaðist hins vegar og bar Hans við veikindum hennar, enda um langan veg að fara. Þegar hér var komið sögu hafði Hans raunar flutt Sunnefu á bæinn Egilsstaði innar í Fljótsdal þar sem hann bjó sjálfur fram að alþingisferðinni en bróðir hennar, Jón, orðið eftir á Skriðuklaustri.

En veikindi Sunnefu höfðu sínar skýringar; hún var ófrísk öðru sinni og ól barnið í desember sama ár og alþingisferðin var fyrirhuguð. Og þrátt fyrir að kornabarnið hafi verið skírt af presti og skráð í kirkjubækur, eins og lög gera ráð fyrir, þá yfirheyrði Hans Wíum Sunnefu ekki um faðernið fyrr en í lok aprílmánaðar. Uppi varð svo fótur og fit þegar Sunnefa greindi frá því að afkvæmið væri sýslumannsins sjálfs. Missti hann embætti sitt um skeið vegna málsins en við frekari yfirheyrslur játa loks þau systkin, Jón og Sunn­efa, að hafa drýgt blóðskömm öðru sinni. Tvö vitni staðfestu að þegar Hans hefði þráspurt Sunn­efu um faðernið og að lokum spurt hreint út hvort barnið ætti Jón bróðir hennar, hefði hún svarað: „Það verður svo að vera.“[5]

Voru dauðadómar yfir þeim Sunn­e­fu og Jóni því orðnir tveir, fyrst samþykktir á tveimur héraðsþingum á Bessastöðum, en síðan átti að staðfesta þá báða á Alþingi sumarið 1742. Málið dróst hins vegar enn á langinn, einkum vegna þess að játningar systkinanna þóttu ekki nógu traustar og vilja margir meina að óvildarmenn sýslumanns hefðu viljað knésetja hann með því að efast um yfirheyrslur hans. Raunverulegar lyktir þessa máls eru raunar enn á huldu, enda þótt bundinn hafi verið endi á það með úrskurði um dauðadóm þeirra systkina í fjórða sinn á Alþingi hinn 19. júní árið 1759. Jón andaðist þremur vikum áður en aftaka hans átti að fara fram en þá hafði Sunnefa verið látin í nærri tvö ár. Hún lést sennilega vorið 1757, að sögn í varðhaldi á Eiðum.[6] Aðrar sögur segja að Hans Wíum hafi á endanum framfylgt dómnum og drekkt henni á aftökustað Múlaþings í Fljótsdal, drekkingarhylnum við Bessastaði, þar sem dómur var fyrst kveðinn upp í málinu á héraðsþingi hartnær tuttugu árum áður.

Beinin við Sunnefuhyl

Hylurinn í Bessastaðaárgili er gjarnan nefndur Sunnefuhylur, svo mikla athygli vakti framganga hennar í málinu. Vel varðveitt höfuðkúpa og fleiri bein fundust síðan í gjótu við hylinn árið 1981, líkt og greint er frá í Tímanum 16. júní sama ár. Haft var samband við þjóðminjavörð sem ákvað að taka beinin ekki til varðveislu. Skýringin var sú að beinin væru ekki nógu gömul fyrir safnið.[7] Í þessu óleysta máli – „cold case“ – voru sumsé hugsanlega til sönnunargögn, ólíkt því sem er í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Þar eru hvorki bein né morðvopn til staðar, aðeins játningar úr langvarandi yfirheyrslum. Þá er enn á huldu hvort bein þeirra kvenna sem drekkt var samkvæmt Stóradómi kunni að liggja í gjótum við hylina eða í dýpinu, eins og Bubbi spyr að í kvæði sínu. Svo mikið er víst að sakamenn þessa tíma áttu ekki rétt á greftrun í kirkjugarði, þrátt fyrir að hafa goldið fyrir breyskleika og yfirsjónir mannanna með lífi sínu. Enn eru þau utan garðs, Þórdís, Sunnefa og Jón.

Þú finnur fleiri fróðlegar greinar á hugras.is.

Heimildir

[1]
 Már Jónsson (1993). Blóðskömm á Íslandi 1270–1870. Reykjavík: Háskólaútgáfan.*

[2] Inga Huld Hákonardóttir (1992). Fjarri hlýju hjónasængur. Öðruvísi Íslandssaga. Reykjavík: Mál og menning, bls. 195–198. 

[3] Inga Huld Hákonardóttir 1992, bls. 199–203. 

[4] Agnar Hallgrímsson (1992). Hans Wíum sýslumaður og afskipti hans af Sunnefumálinu og öðrum réttarfarsmálum. Múlaþing 19, bls. 65–118. 

[5] Agnar Hallgrímsson 1992, bls. 96. 

[6] Agnar Hallgrímsson 1992, bls. 110–118. 

[7] Reyndar hafa bein frá öllum tímaskeiðum Íslandssögunnar verið tekin til varðveislu á safninu, auk þess sem ekki er hægt að skera úr um aldur beina sem ekki eru úr kumli eða gröf nema með kolefnisaldursgreiningu. Fyrirgrennslanir mínar um afdrif beinanna sem fundust í gjótunni hafa hins vegar ekki borið árangur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.