Skoðun

101 Popúlismi Fréttablaðsins

Haraldur Einarsson skrifar
Leiðari Fréttablaðsins 25. febrúar undirstrikar þekkingarleysi á málefnum Laugarvatns og að höfundur hefur einungis kynnt sér 101-hlið málsins. Háskóli Íslands er sjálfstæð stofnun en er ekki hafin yfir gagnrýni. Sérstaklega ekki af hálfu þeirra sem veittu Háskólanum 12,5 milljarða króna í síðustu fjárlögum. Þingmenn Suðurkjördæmis, sem og margir aðrir þingmenn, vilja bjóða upp á nám á Laugarvatni eins og hefur reyndar verið boðið upp á síðastliðin 84 ár. Gagnrýni á ákvörðun Háskólans er því ekki einhver popúlismi. Þetta snýst um mikið áfall fyrir litla byggð úti á landi, sem er samofin háskólasamfélaginu og byggir að stórum hluta sína starfsemi í kringum Háskólann og fékk engan fyrirvara. Námið á Laugarvatni er hluti af merkri menntasögu landsins. Laugarvatn hefur verið byggt upp sem menntaþorp, þekkingarsamfélag. Því miður virðast margir ekki bera nokkra virðingu fyrir því. Ákvörðunin um að loka á þessa merku sögu er áfall, ekki bara fyrir Laugarvatn heldur fyrir landið allt.

Nemendur, núverandi og fyrrverandi vilja halda náminu á Laugarvatni. Stjórnendur vilja breyta náminu til að tryggja aukinn áhuga sem og að aðlaga námið að breyttum áherslum samfélagsins. Háskólinn hefur ekki sinnt viðhaldi á fasteignum skólans á Laugarvatni undanfarin ár. Ekkert samtal var við fjárveitingavaldið til að koma til móts við Laugarvatn. Reiknireglan fyrir Laugarvatn miðast við að námið sé í Reykjavík. Allt þetta er gagnrýnivert en ekki popúlismi. Sérstaklega í ljósi þess að mikill stuðningur er við háskólanám í háskólaþorpinu Laugarvatni.

Fækkun nemenda hefur verið töluverð frá árinu 2010, eða frá því námið var lengt úr þremur árum í fimm. Fækkunin hefur þó ekki verið meiri í íþróttanámi en öðru kennaranámi. Aðrar kennaragreinar hafa komið verr út en íþróttakennaranám, þrátt fyrir að vera kenndar í höfuðborginni. Háskólinn hefur ekki gert greiningu á þessari fækkun hjá menntavísindasviði. Ljóst er því að fækkunin hefur ekkert með staðsetninguna að gera heldur kerfisbreytingar á kennaranámi almennt.

Málamyndagjörningur

Markmiðið var aldrei af hálfu Háskólans að halda náminu á Laugarvatni. Annars hefði verið ráðist í breytingar og eflingu á náminu á Laugarvatni líkt og gert var við leikskólakennaranám þegar skráning þar var hvað verst. Það var mikill áhugi heimamanna og velunnara námsins að fara í öfluga kynningu á náminu. Auðvitað hefði átt að vera í gangi alvöru samtal við Alþingi, Bláskógabyggð og háskólafélag Suðurlands, en ekki byrjað á því daginn eftir að ákvörðun Háskólaráðs var frestað, þó það hafi bara verið málamyndagjörningur.

Það er alfarið rangt hjá leiðarahöfundi að það sé einungis hægt að stunda íþróttakennaranám á Laugarvatni. Höfundur ætti að athuga heimasíðu Háskóla Reykjavíkur og endurskrifa greinina. Núna hins vegar verður ekki hægt að stunda íþróttakennaranám á landsbyggðinni. Einnig fer leiðarahöfundur ranglega með gæði náms á Laugarvatni, þar ætti hún að tala við rektor sjálfan enda námið mjög gott og mikil ánægja með það.

Ég fullyrði að nánast allir á Alþingi vilji stuðla að námi úti á landi samhliða uppbyggingu náms í höfuðborginni. Það virðist hins vegar ekki vera hægt í samstarfi við Háskóla Íslands. Háskólinn hefur rofið sátt um að Háskólinn eigi að vera Háskóli allra landsmanna.

Fréttamenn eiga að vera gagnrýnir á ákvarðanir og upplýsandi, ekki gagnrýnir á einstaka stjórnmálaflokka og taka afstöðu með eða á móti ákvörðunum. Það taldi ég vera markmiðið eða er markmiðið 101 Popúlismi?








Skoðun

Sjá meira


×