Erlent

Maður handtekinn vegna gíslatökunnar í London

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan er með mikinn viðbúnað við veitingastaðinn.
Lögreglan er með mikinn viðbúnað við veitingastaðinn. mynd/twitter
Uppfært klukkan 23:10: Lögreglan í London hefur handtekið mann sem grunaður er um að hafa haldið konu í gíslingu á veitingastað við Leicester Square. Auk þeirra voru tveir aðrir inn á veitingastaðnum en enginn slasaðist. Gíslatakan stóð yfir í um tvær klukkustundir en maður sem var handtekinn var vopnaður hníf.

Talið er að konu sé haldið í gíslingu á veitingastaðnum Bella Italia á Leicester Square í London en lögreglan er nú með mikinn viðbúnað á torginu í og við veitingastaðinn.

Samkvæmt frétt Independent er talið að maður vopnaður hníf sé inni á veitingastaðnum og að hann haldi konu þar inni gegn vilja hennar. Að auki eru tveir aðrir inni á staðnum en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni tengist gíslatakan ekki hryðjuverkastarfsemi. Þá er talið að fólkið á veitingastaðnum þekkist innbyrðis.

Jordan Brown, sem var að spila tónleikum á Caffe Concerto við hliðina á Bella Italia á Leicester Square, segir í samtali við BBC að allt í einu hafi lögreglumenn komið inn á staðinn og beðið hljómsveitina um að hætta að spila.

„Þeir sögðu okkur síðan að halda okkur innandyra. Við megum ekki fara og þeir hafa lokað götunni.“

Að sögn Brown eru lögreglumenn að reyna að ná sambandi við fólkið inni á Bella Italia í gegnum glugga veitingastaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×