Handbolti

Dagur: Fótboltastrákarnir geta komið á óvart í Frakklandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur hefur trú á fótboltastrákunum okkar.
Dagur hefur trú á fótboltastrákunum okkar. Samsett mynd/Vísir/Getty
Dagur Sigurðsson var í viðtali á heimasíðu Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, þar sem hann ræðir bæði árangur sinn með þýska handboltalandsliðinu og áhuga sinn á knattspyrnu.

Dagur gerði Þýskaland að Evrópumeistara í handbolta sem kunnugt er en árangurinn vakti gríðarlega athygli, ekki síst fyrir þær sakir að Dagur var með ungt og óreynt lið í höndunum vegna meiðsla margra lykilmanna.

Margir af stærstu knattspyrnustjörnum Þýskalands óskuðu Degi og hans mönnum til hamingju með árangurinn og segir Dagur að þeir hafi vel merkt hversu góðan og víðtækan stuðning liðið fékk.

Í greininnni er sagt frá því að Dagur hafi á sínum tíma æft fótbolta og að hann eigi að baki leiki með U-17 liði Íslands. „Ég hafði gaman að báðum íþróttum og var ekkert að velta því fyrir mér þá hvort ég yrði atvinnumaður í íþróttum,“s sagði Dagur í viðtalinu. „Ég ákvað að spila handbolta vegna þess að ég átti fleiri vini þar.“

Vísir/Getty
Elskar ensku úrvalsdeildina

Dagur segist fylgjast mjög vel með fótbolta og fari oft á völlinn til að sjá Herthu Berlín spila. Hann elskar ensku úrvalsdeildina eins og margir Íslendingar og þá sérstaklega Manchester United, segir hann.

„Ég fer oft á leiki í Englandi. Ég var til dæmis á fyrsta leik Jürgen Klopp með Liverpool þegar liðið mætti Tottenham. Það var gaman,“ sagði hann.

Dagur segir að það komi ekki til greina að taka að sér þjálfarastarf í fótboltanum þó svo að fjölmiðlar hafi fjallað um það.

„Ég var spurður hvort ég hefði íhugað þap og sagði já. Metnaður minn liggur þó ekki þar og ég hef engin tilboð fengið,“ sagði Dagur og sagði að það væri í grunninn mikill munur á handbolta og fótbolta.

Vísir/Getty
Handboltinn þarf ekki að skammast sín

„Tæknilega séð er munar mikið á íþróttunum en þrátt fyrir það þarf handboltinn ekkert að skammast sín í samanburði við fótbolta, hvað stemningu og spennu varðar. Það er meira „action“ í handbolta, fleiri mörk og meiri hraði. Þess fyrir utan er mun auðveldara að breyta um taktík í handbolta.“

Talið berst svo að árangri íslenska karlalandsliðsins í fótbolta sem verður meðal þátttökuliða á stórmót í fyrsta sinn í sumar. „Það er stórbrotinn árangur. Ég er sannfærður um að þeir geta komið á óvart þó svo að það verði auðvitað erfitt,“ sagði Dagur sem kannast vel við það að vera lægra skrifaða liðið.

„Svoleiðis hlutir skipta engu máli þegar flautað er til leiks. Við vorum með ungt lið [á EM í handbolta] sem við höfðum trú á. Við stóðum okkur vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×