Fótbolti

Albert lagði upp mark í jafntefli gegn Roma | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. vísir/getty
Albert Guðmundsson, hinn gríðarlega efnilegi U19 ára landsliðsmaður Íslands, lagði upp fyrra mark PSV Eindhoven í 2-2 jafntefli gegn Roma í Meistaradeild ungmenna í dag.

Þetta var fyrri leikur liðanna í 16 liða úrslitum keppninnar, en PSV vann B-riðilinn á sama tíma og Roma hafnaði í öðru sæti E-riðils á eftir Barcelona. Albert og félagar skildu Manchester United eftir í B-riðlinum.

Leikurinn var aðeins fjórtán mínútna gamall þegar Albert lagði upp mark fyrir Steven Bergwijn, en Roma tók forystuna með mörkum á 49. og 68. mínútu. Stoðsendingin hjá Alberti var afskaplega falleg en myndband af henni má sjá hér að neðan.

Albert var tekinn af velli á 71. mínútu og inn á fyrir hann kom Belginn Matthias Verreth. Hann jafnaði metin tveimur mínútum síðar og þar við sat, 2-2.

Liðin mætast aftur í Rómarborg þar sem Roma-liðið er í fínum málum eftir að skora tvö mörk á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×