Erlent

Drama í dönskum stjórnmálum

Samúel Karl Ólason skrifar
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og formaður Venstre.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og formaður Venstre. Vísir/EPA
Miklar deilur eru nú uppi í dönskum stjórnmálum og ríkir óvissa um það hvort að minnihlutaríkisstjórn Venstreflokksins verði áfram við völd. Ríkisstjórnin er studd af Danska þjóðarflokknum, Íhaldsflokknum og Frjálslyndum, en Íhaldsflokkurinn lýsti í gær yfir vantrausti á landbúnaðarráðherra Venstra, Evu Kjer Hansen.

Kallað var til neyðarfundar Venstre og stuðningsflokkanna í gærkvöldi.

Á fundinum í gær sagði Lars Løkke Rasmussen að minnihlutaríkisstjórn hans félli ef Íhaldsflokkurinn styddi vantrauststillöguna gegn landbúnaðarráðherranum. Svo virðist sem að engin niðurstaða hafi fengist á fundinum sem lauk um miðnætti.

Søren Pape Poulsen, leiðtogi Íhaldsflokksins segir viðhorf flokksins til Evu Kjer ekki hafa breyst. Samkvæmt DR styðja Íhaldsmenn þó enn ríkisstjórn Venstre, en traust þeirra á Evu Kjer er horfið. Þó ætlar flokkurinn að styðja frumvarpið sem olli þessum deilum.

Vantrauststillagan er til komin vegna deilna um frumvarp Evu Kjer, sem talið er fegra losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði Danmerkur. Hún er sökuð um að byggja frumvarp sitt á áætlunum og gögnum frá Bændasamtökum Danmerkur, nánast óbreytt.

Samkvæmt Thelocal.dk mun frumvarpið veita bændum leyfi til að notast við mun meiri áburð en áður, sem hefur vakið upp ótta um stöðu grunnvatns í Danmörku. Frumvarpið er talið geta komið verulega niður á náttúrunni í Danmörku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×