Skoðun

Réttlát málsmeðferð?

Gestur Jónsson og Hörður Felix Harðarson og Kristín Edwald skrifa
Mál sem Embætti sérstaks saksóknara hefur höfðað gegn fyrrverandi starfsmönnum fjármálafyrirtækja hafa verið fyrirferðarmikil í réttarkerfinu og umfjöllun fjölmiðla síðari ár. Málin hafa iðulega verið mikil að vöxtum og algengt að málsgögn nemi þúsundum eða tugþúsundum blaðsíðna. Verjendur einstaklinganna sem sóttir hafa verið til saka í þessum málum hafa gagnrýnt starfsaðferðir embættisins, jafnt við rannsókn málanna sem meðferð þeirra fyrir dómi.

Meðal þess sem sætt hefur gagnrýni er meðferð embættisins á gögnum sem aflað hefur verið við rannsókn málanna.

Sökuðum mönnum er í lögum tryggður aðgangur að gögnum máls. Samkvæmt 37. gr. sakamálalaga skal verjandi „fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu“. Réttur sakaðs manns til aðgangs að sömu gögnum og ákæruvaldið hefur aflað við rannsókn máls er jafnframt ríkur þáttur í grundvallarreglunni um réttláta málsmeðferð sem birtist í 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi mikil­væga regla hefur verið umfjöllunarefni í fjölmörgum dómum Mannréttindadómstóls Evrópu.

Við rannsókn Embættis sérstaks saksóknara á málefnum föllnu viðskiptabankanna hafa fyrrverandi starfsmenn og verjendur þeirra hvorki fengið afhent þau gögn sem aflað var við rannsóknina né aðstöðu til að kynna sér gögnin. Þess í stað hafa rannsakendur sjálfir lagt mat á það hvaða gögn teljast hafa sönnunargildi og hver ekki. Aðgangur verjendanna og skjólstæðinga þeirra er bundinn við þau gögn. Af því leiðir að margir sem sóttir hafa verið til saka fyrir meinta refsiverða háttsemi hafa átt þann kost einan að treysta því að starfsmenn embættisins hafi við þetta mat hugað jafnt að gögnum sem benda til sektar sem hinna sem leitt geta til sýknu. Mótmæli verjenda gegn starfsháttum embættisins og kröfur um aðgang að rannsóknargögnum hafa lítinn hljómgrunn fengið fyrir dómstólum.

Við meðferð máls sem ákæruvaldið höfðaði gegn þremur fyrrverandi stjórnendum Kaupþings, þar sem undirrituð voru verjendur og dæmt var 26. janúar sl. í Héraðsdómi Reykjavíkur, gerðist það hins vegar að ákærðu var veittur aðgangur að litlum hluta gagnanna sem ákæruvaldið hafði aflað við rannsókn málsins. Um var að ræða tölvupósthólf tveggja viðskiptastjóra en annar þeirra hafði gegnt lykilhlutverki við framkvæmd lánveitinganna sem ákæruvaldið taldi til umboðssvika. Í ákæru var fullyrt að lán hafi verið veitt án nokkurra trygginga. Ákærðu andmæltu þessu, m.a. á þeim grunni að andvirði lánanna hafi runnið til kaupa á skuldabréfum útgefnum af Deutsche Bank. Töldu ákærðu að skuldabréfin hefðu verið í vörslum bankans og staðið til tryggingar umræddum lánum.

Aðgangur að gögnum skipti sköpum

Það tók ákærðu og verjendur fáeinar klukkustundir að finna gögn í tölvupósthólfi annars viðskiptastjórans þar sem sjá mátti að skuldabréfin voru kyrfilega veðsett bankanum. Meðal gagnanna voru skjámyndir úr tölvukerfum bankans sem sýndu glöggt varðveislu skuldabréfanna, sem voru rafrænt skráð, auk samskipta milli starfsmanna bankans um þetta efni. Í dómi héraðsdóms var vísað til þessara nýju gagna, auk framburða ákærðu og vitna sem voru í samræmi við gögnin, og komist að þeirri niðurstöðu að fullyrðingar í ákæru um að lánin hafi verið veitt án trygginga væru rangar. Þegar af þessari ástæðu voru ákærðu sýknaðir.

Ákæruvaldið reyndi á öllum stigum málsins að koma í veg fyrir að ákærðu kæmust í þessi gögn. Niðurstöðu héraðsdóms um aðgang skaut ákæruvaldið til Hæstaréttar. Þeirri kæru var vísað frá af formsástæðum. Ákæruvaldið barðist einnig gegn því að gögn sem fundust við leit ákærðu og verjenda þeirra kæmust að í dómsmálinu og skaut þeim ágreiningi einnig til Hæstaréttar en aftur án árangurs.

Ákvörðun dómara um að veita ákærðu þennan takmarkaða aðgang að gögnum skipti hér sköpum við úrlausn málsins. Ef kröfum ákærðu hefði verið hafnað er ljóst að mikilvæg gögn hefðu aldrei komið fyrir augu dómara málsins. Málið hefði þá verið dæmt á grundvelli þeirra gagna einna sem ákæruvaldið taldi máli skipta. Sú staða hefur verið uppi í öðrum málum sem rekin hafa verið á hendur þessum sömu einstaklingum og mörgum öðrum. Er ekki eitthvað rangt við þetta? Hvernig samrýmist þetta framangreindum grundvallarreglum um jafnan aðgang ákæruvalds og ákærðu að gögnum?

vísir/stefán



Skoðun

Sjá meira


×