Erlent

Viðskipti Rússa dragast saman

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Vísir/Valli
Viðskipti Rússa við lönd í austanverðu Evrópusambandinu drógust saman um nærri þriðjung á síðasta ári, að því er fram kemur í nýlegri umfjöllun Financial Times. Samdrátturinn kemur meðal annars til af viðskiptaþvingunum vegna innlimunar Rússlands á Krímskaga, auk kreppu í Rússlandi og fallandi olíuverðs sem skert hafi verðmæti útflutnings þaðan.

Fram kemur að útflutningur til Rússlands frá löndunum sex sem fullar upplýsingar liggi fyrir um hafi verið 5,9 milljörðum evra minna virði árið 2015 en 2014. Upphæðin samsvarar tæpum 842 milljörðum íslenskra króna. „Sala varnings frá Litháen, Lettlandi, Eistlandi, Póllandi, Tékklandi og Búlgaríu dróst að jafnaði saman um 30 prósent á síðasta ári,“ segir í umfjöllun FT. Þá hafi samdrátturinn verið svipaður fyrstu ellefu mánuði ársins í Slóvakíu og Ungverjalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×