Skoðun

Finnst ofbeldi gegn öldruðum í íslensku samfélagi?

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir skrifar
Hvað er ofbeldi? Um það er mikið rætt og ritað á Íslandi. Lítið hefur þó farið fyrir því að það sé í umræðunni gagnvart öldruðum. Við tölum um einelti í skólum, einelti á vinnustöðum, kynferðislegt ofbeldi, fordóma gagnvart útlendingum og/eða samkynhneigðum. Allt er þetta ofbeldi í einhverri mynd. En eru líka fordómar og ofbeldi í gangi gagnvart öldruðum? Ég held að fullyrða megi að bæði fordómar og ofbeldi viðgangist gagnvart öldruðum hér á landi.

Öldrunarráð Íslands og Landssamband eldri borgara ásamt fleiri aðilum stóðu fyrir ráðstefnu um ofbeldi gagnvart öldruðum á Grand hóteli 27. nóv. sl. Þar voru flutt afar áhugaverð erindi og varpað ljósi á ofbeldi í ýmsum myndum gagnvart öldruðum. Sjónarhorn lögreglu kom fram um heimilisofbeldi og hvernig það lýsir sér gegn öldruðum. Dæmi voru tekin um fjárhagslegt ofbeldi.

Mjög áhugavert var ekki síst erindi Kristjönu Sigmundsdóttur, sem lýsti markmiðum laganna um réttindagæslu fatlaðs fólks sem eru frá árinu 2011 og spurði: Er þörf fyrir slíkt meðal aldraðra? Í dag eru átta réttindagæslumenn fatlaðs fólks á landinu og það hefur sýnt sig að mikil þörf er fyrir þá. Í lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk segir m.a.: „Öllum er skylt að tilkynna til réttindagæslumanns ef þeir hafa ástæðu til að ætla að brotið sé á rétti fatlaðs einstaklings.“ Þetta á jafnt við um aðstandendur, þjónustuaðila, og alla sem verða varir við slíkt. Ennfremur segir: „Réttindagæslumaður skal veita hinum fatlaða einstaklingi nauðsynlegan stuðning og kanna málið að höfðu samráði við hann -?-?- hann aðstoðar hinn fatlaða einstakling við að leita réttar síns miðað við atvik máls hverju sinni.“

Réttindagæsla fyrir aldraða

Mér sýnist liggja ljóst fyrir að koma þarf á réttindagæslu fyrir aldraða. Allt of mörg dæmi höfum við um það að á þeim sé brotið, ekki síst ef þeir eru orðnir veikir og/eða vanmáttugir til að gæta réttar síns sjálfir. Nú liggur fyrir Alþingi í 8. sinn tillaga um að koma á fót embætti umboðsmanns aldraðra. Slík mál hafa alltaf lognast út af í þinginu alveg frá árinu 1995 að það kom fyrst fram í þingsályktunartillögu. Vonandi gerist það ekki einu sinni enn. Landssamband eldri borgara hefur árum saman ályktað um þörf fyrir umboðsmann aldraðra, og á síðasta landsfundi LEB var einnig ítrekað að réttindagæslumenn þyrfti fyrir aldraða líkt og fyrir fatlað fólk.

Öll þjóðin veit að fjölgun í hópi aldraðra er staðreynd og þar með fjölgar þeim sem þurfa aðstoð samfélagsins. Margir aðstandendur aldraðra eru þeirra hjálparhellur, en hitt er líka til að aðstandendur geri ekki neitt til hjálpar, eða hafi ekki aðstöðu til þess sökum fjarlægðar eða annarra orsaka.

28. janúar sl. var ég ásamt fleirum á fjölmennum vinnufundi í Iðnó á vegum 3ja ráðuneyta til að koma með tillögur um aðgerðir til að vinna gegn ofbeldi, t.d. forgangsraða aðgerðum. Verði farið í verulegt átak til að sporna gegn ofbeldi þá þarf einnig að viðurkenna að ofbeldi gegn öldruðum er staðreynd. Það er því löngu tímabært að koma á fót tiltækum úrræðum eins og umboðsmanni aldraðra og réttindagæslumönnum fyrir aldraða. Aldrað fólk á skilið fulla virðingu samfélagsins og stuðning okkar allra.




Skoðun

Sjá meira


×