Erlent

Rússar leita að fimm höfrungum til að þjónusta herinn

Atli Ísleifsson skrifar
Sovéski og bandaríski herinn notuðust á sínum tíma talsvert við höfrunga á tímum kalda stríðsins.
Sovéski og bandaríski herinn notuðust á sínum tíma talsvert við höfrunga á tímum kalda stríðsins. Vísir/Getty
Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur auglýst eftir fimm höfrungum í toppstandi til kaupa. Höfrungunum er ætlað að þjónusta her landsins við leit að óvinveittum kafbátum og tundurduflum.

Varnarmálaráðuneytið býður 1,75 milljónum rúbla, um þrjár milljónir króna, fyrir höfrungana, en þess er krafist að þeir verði fluttir til hafnarborgarinnar Sevastopol á Krímskaga fyrir 1. ágúst.

Í frétt AFP segir að í útboðsgögnum komi fram að leitað sé að tveimur kvenkyns og þremur karlkyns höfrungum  á aldrinum þriggja til fimm ára. Þeir skulu auk þess vera fullkomlega tenntir og ekki með neina aðra galla.

Sovéski og bandaríski herinn notuðust á sínum tíma talsvert við höfrunga á tímum kalda stríðsins til að aðstoða við leit að kafbátum, tundurduflum og grunsamlegum hlutum eða fólki í nánd við skip og hafnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×