Handbolti

Dagur jákvæður fyrir nýrri ofurdeild

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins.
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins. Vísir/Getty
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta, er hrifinn af hugmyndum sem fram hafa komið um stofnun nýrrar alþjóðlegrar ofurdeildar í handbolta.

Premier Handball League á samkvæmt áætlunum að hefjast árið 2019 en um er að ræða tólf liða ofurdeild sem samanstendur af tólf félögum. Á hún að leysa Meistaradeild Evrópu af hólmi.

„Verkefnið er komið með hendur og fætur,“ sagði Dagur í samtali við Berliner Morgenpost. „Áætlanir eru til staðar og mér finnst þessi ofurdeild áhugaverð. Hún gæti orðið bylting fyrir handboltann.“

Hann segir að tilvist deildarinnar sé háð því að stórlið eins og Barcelona, PSG, Veszprem og Kielce séu reiðubúin að taka þátt í verkefninu. „En það lítur út fyrir að þýsku liðin séu tilbúin til þess,“ sagði Dagur en Kiel og Füchse Berlin eru sögð áhugasöm um að taka þátt.

Vilja þátttöku stórborga

Umboðsmaðurinn Wolfgang Gütschow segir að handboltinn eigi í dag enga stóra markaðsvöru sem gæti náð athygli á alheimsíþróttamarkaði.

„Fjárfestar okkar vilja þátttöku stórborga eins og Berlín, París, Barcelona og Moskvu. Markmiðið er að gera handboltann tilbúinn fyrir Bandaríkjamarkað,“ sagði hann við þýska fjölmiðla.

Kiel vill vera með

Thorsten Storm, framkvæmdastjóri Kiel, segir að það hafi ávallt verið markmið félagsins að gera handboltann vinsælli og arðbærari. „Það er ekkert leyndarmál að Kiel sér mikla kosti við það að vera taka þátt í alþjóðlegri deild samhliða þýsku úrvalsdeildinni.“

Handknattleikssamband Evrópu [EHF] hefur fengið upplýsingar um verkefnið en nýja deildin yrði fjármögnuð og starfrækt af einkaaðilum. Yfirmaður markaðsdeildar EHF, Peter Vargo, er sagður ætla að hefja störf fyrir nýju ofurdeildina í sumar en hann hefur hingað til haft það á sinni könnu að markaðssetja Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×