Fótbolti

Solskjær: Eiður er olían á vélina okkar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Heimasíða Molde
Þó svo að tímabilið í Noregi sé ekki byrjað er Eiður Smári Guðjohnsen eitt heitasta umræðuefnið í norska boltanum en hann samdi við Molde fyrr í vetur.

Dag-Eilev Fagermo er þjálfari Odd og segist vera spenntur fyrir því að fá leikmann eins og Eið Smára í deildina - ef hann er enn jafn góður og hann var áður.

Sjá einnig: Eiður Smári: Styrktarþjálfarinn orðinn besti vinur minn

„Ole Gunnar [Solskjær, þjálfari Molde] er mjög ánægður með hann en Guðjohnsen hefur ekki spilað mikið síðustu árin. Það verður spennandi að sjá þetta,“ sagði Fagermo sem var spurður hvort hann væri efins um komu hans.

„Nei, það sagði ég ekki. Ég sagði að ég væri spenntur. En það er erfitt að vita hvað verður.“

Er það gott fyrir deildina að fá leikmann eins og hann?

„Já, ef hann er enn jafn góður og hann var,“ svaraði Fagermo.

Solskjær er ekki í vafa um að Eiður Smári muni reynast Molde vel í sumar. „Við fengum hann ekki til að slá öll met í líkamlegum þáttum. Við sömdum við heila, þann sem fær vélina til að virka. Hann er olían á vélina okkar.“

Sjá einnig: Verður að svara þegar maður eins og Ole Gunnar hringir

„Það er ótrúlegt að sjá hvernig hann nær að tengja saman miðju og sókn. Hann er frábær. Hann er ofurstjarna og hefur upplifað ótrúlega margt. Hann hefur sýnt öllum leikmönnum mikla virðingu og þeir læra mikið af honum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×