Erlent

Erin Andrews dæmdar 55 milljónir Bandaríkjadala í bætur

Atli Ísleifsson skrifar
Erin Andrews.
Erin Andrews. Vísir/AFP
Dómstóll í Bandaríkjunum hefur gert eigendum Nashville Marriott hótelsins og Michael David Barrett að greiða bandarísku íþróttafréttakonunni Erin Andrews 55 milljónir Bandaríkjadala, um sjö milljarða króna, í skaðabætur vegna nektarmynda sem Barrett tók af Andrews á hótelinu árið 2008 og dreifði á netið.

Washington Post greinir frá þessu.

Málið hefur vakið mikla athygli vestanhafs, en Andrews fór fram á 75 milljónir Bandaríkjadala.

Í dómnum segir að hótelstarfsmenn hafi sýnt af sér vanrækslu með því að upplýsa Barrett um hótelherbergi Andrews og afhenda honum herbergi við hlið hennar. Barrett hefur viðurkennt að hafa notast við smærri gerð af öxi til að opna gægjugöt á hótelherbergjum til að mynda Andrews og raunar fleiri konur.

Andrews sagði fyrir rétti að hún hafi daglega þurft að endurlifa atvikið. Hún starfar nú sem íþróttafréttakona hjá Fox sjónvarpsstöðinni en starfaði á þeim tíma hjá ESPN. Hún sagði fyrir dómi að hún fái stöðugt skilaboð sem snúa að myndskeiðinu, allt frá því að því var dreift á netinu 2008.

Barrett hefur nú þegar afplánað tveggja ára dóm vegna málsins, en hann ferðaðist milli ríkja í þeim tilgangi að mynda Andrews við fjölda tilvika. 

„Ég skammast mín svo mikið. Þetta gerist á hverjum degi. Annað hvort fæ ég send tíst, eða þá minnist einhver á þetta í blöðunum, eða einhver sendir mér skjáskot úr myndbandinu á Twitter-síðu minni, eða þá öskrar einhver á mig úr áhorfendapöllunum,“ sagði Andrews í vitnastúkunni. 

Hún ræddi málið í þætti Oprah Winfrey árið 2009 og má sjá brot úr viðtalinu að neðan.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×