Handbolti

Ljóst hvaða lið mætast í 16-liða úrslitum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur gæti mætt sínum gömlu félögum í Kiel í 8-liða úrslitunum.
Guðjón Valur gæti mætt sínum gömlu félögum í Kiel í 8-liða úrslitunum. Vísir/Getty
Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handbolta lauk um helgina og því ljóst hvaða lið eru komin beint áfram í 8-liða úrslitin og hvaða lið mætast í 16-liða úrslitum.

Nýtt keppnisfyrirkomulag er á keppninni í ár en skipt var í riðla eftir styrkleika liðanna. Sterkustu liðin fóru í A- og B-riðla en veikari lið í C- og D-riðla.

Sigurvegara sterkari riðlanna, PSG og Barcelona, fara beint áfram í 8-liða úrslitin. Liðin í 2.-6. sæti úr A- og B-riðlum fara svo í 16-liða úrslitin.

Efstu tvö liðin úr C- og D-riðlum mætast svo í sérstöku umspili um síðustu tvö sætin í 16-liða úrslitunum, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

Eftir fjórðungsúrslitin fara svo fjögur lið í svokallað Final Four sem er úrslitahelgi keppninnar og fer að venju fram í Köln í Þýskalandi í vor.

16-liða úrslitin fara fram síðar í þessum mánuði og verða nokkur Íslendingalið í eldlínunni.

Kiel, lið Alfreðs Gíslasonar, mætir ungverska liðinu Pick Szeged og þá leikur Rhein-Neckar Löwen gegn Zagreb en þeir Alexander Petersson og Stefán Rafn Sigurmannsson leika með Löwen.

Aron Pálmarsson og hans félagar í Veszprem leika gegn Zaporozhye frá Úkraínu.

Róbert Gunnarsson og félagar í PSG munu mæta sigurvegaranum úr viðureign Löwen og Zagreb í 8-liða úrslitunum.

Barcelona, lið Guðjóns Vals Sigurðssonar, mætir svo liðinu sem hefur betur í rimmu Kiel og Pick Szeged.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×