Erlent

Réðust á herstöð í Túnis

Samúel Karl Ólason skrifar
Túniskir hermenn í Ben Gardane.
Túniskir hermenn í Ben Gardane. Vísir/AFP
Vígamenn réðust í nótt að herstöð við bæinn Ben Gardane við landamæri Túnis og Líbýu. Minnst þrettán vígamenn féllu í árásinni, hermaður, tveir öryggisverðir og þrír borgarar. Þetta er í annað sinn á innan við viku sem til átaka kemur við landamærin þar sem yfirvöld í Túnis reyna að koma í veg fyrir að óöldin í Líbýu dreifi úr sér.

Meðal hinna látnu er tólf ára drengur.

Varnarmálaráðuneyti Túnis sagði AFP fréttaveitunni að sex vígamenn væru særðir og þeir yrðu yfirheyrðir. Þá hefur verið kallað eftir ábendingum um grunsamlegar mannaferðir við landamærin.

Bandaríkin gerðu loftárásári á þjálfunarbúðir ISIS í Líbýu í síðasta mánuði. Í árásinni féllu tugir vígamanna frá Túnis og hafa eftirlifendur árásarinnar verið að reyna að snúa aftur til Túnis. Stjórnvöld þar í landi hafa reist um 200 kílómetra girðingu við landamærin vegna flutninga fólks yfir landamærin.

Sameinuðu þjóðirnar telja að rúmlega fimm þúsund ungir menn frá Túnis hafi gengið til liðs við vígahópa.

Vígamenn ISIS gerðu tvær árásir á ferðamenn í Túnis í fyrra, sem hefur farið verulega illa með ferðamannaiðnaðinn í landinu, sem ríkissjóður Túnis treystir verulega á. Talið er að árásirnar hafi verið skipulagðar í Líbýu.

38 ferðamenn féllu í einni árásinni á strandhótel í fyrra. Þar af voru 30 Bretar, en yfirvöld Bretlands ætla að senda tuttugu hermenn til Túnis. Þeir munu þjálfa þarlenda hermenn.

Meðal skotmarka í loftárásunum í síðasta mánuði var maður að nafni Noureddine Chouchane, sem talinn er hafa skipulagt árásirnar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×