Erlent

Mistókst að lenda geimflaug

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fyrirtækið SpaceX skaut í nótt geimflaug á loft. Allt gekk vel þar til reyna átti að lenda flauginni.
Fyrirtækið SpaceX skaut í nótt geimflaug á loft. Allt gekk vel þar til reyna átti að lenda flauginni. Vísir/Getty
Fyrirtækið SpaceX skaut í nótt ómannaðri Falcon 9 eldflaug út í geim með gervihnött innanborðs. Tókst geimskotið vel en sem fyrr var reynt að lenda eldflaugini er hún sneri aftur til jarðar. Svo virðist sem það hafi mistekist.

Var eldflauginni skotið upp frá Canaveral-höfða í Bandaríkjunum og tókst allt vel þangað til reyna átti að lenda eldflauginu. Elon Musk er eigandi SpaceX og segir hann að ítrekaðar tilraunir til þess að lenda eldflaugum fyrirtækisins geti sparað gríðarlega fjárhæðir því að hægt sé að nota eldflaugarnar aftur.

Í viðtali við Bloomberg í mars á síðasta ári sagði Musk að verði tæknin að raunveruleika muni geimskot kosta um tvö til þrjú hundruð þúsund dali í stað um 61 milljónar dala, um 8,4 milljarðar króna. Þannig myndi SpaceX breyta gangi geimskota í heiminum.

Í lok síðasta árs tókst fyrirtækinu að lenda sambærilegri eldflaug er hún sneri aftur til jarðar. Lenti hún upprétt og var það í fyrsta sinn sem slíkt tókst.

Í nótt átti að endurtaka leikinn. Var lendingunni streymt í beinni útsendingu á vef SpaceX en rétt áður en flaugin átti að lenda á pramma á hafi úti datt útsendingin út. Sjá má bjart ljós í útsendingunni rétt áður en hún dettur út.

Svo virðist sem að forsvarsmenn SpaceX hafi raunar ekki gert ráð fyrir því að lendingin myndi heppnast en vonast Musk til þess að næsta eldflaug geti lent.

Musk getur þó huggað sig við það að allt lítur út fyrir að hafa gengið upp varðandi gervihnöttinn sem skotið var upp á loft með eldflauginni og er hann nú kominn á braut um jörðu. Mun hann verða hluti af neti gervihnatta sem þjónusta eiga um 20 ríki í Asíu og á Kyrrahafi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×