Handbolti

Rúnar og félagar með magnaðan endasprett á móti Flensburg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kárason.
Rúnar Kárason. Vísir/AFP
Íslenski landsliðsmaðurinn Rúnar Kárason og félagar hans í Hannover Burgdorf gerði jafntefli við eitt besta lið deildarinnar á heimavelli í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Hannover Burgdorf og Flensburg gerði 25-25 jafntefli í leiknum í kvöld en Flensburg-liðið hafði unnið sex deildarleiki í röð og er í baráttunni um titilinn við Rhein-Neckar Löwen og Kiel.

Hannover Burgdorf var sex mörkum undir þegar aðeins ellefu mínútur voru eftir en vann lokakafla leiksins 7-1.

Rúnar Kárason skoraði tvö mörk fyrir Hannover Burgdorf en Evrópumeistarinn Kai Hafner var markahæstur hjá liðinu með átta mörk. Holger Glandorf skoraði tíu mörk fyrir Flensburg.

Hannover Burgdorf hefur reyndar enn ekki náð að vinna leik eftir EM-fríið og uppskeran í þeim fjórum leikjum er þrjú stig eftir þrjá jafnteflisleiki.

Rúnar Kárason klikkaði á fyrsta skoti sínu en minnkaði muninn í 10-6 með sínu fyrsta marki í leiknum.

Leikmenn Hannover Burgdorf réðu ekkert við Holger Glandorf sem skoraði sex af ellefu mörkum Flensburg á fyrstu 22 mínútum leiksins.

Flensburg var fimm mörkum yfir í hálfleik, 15-10, en Rúnar var með eitt mark úr tveimur skotum í hálfleiknum.

Flensburg var áfram skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiks en leikmenn Hannover gáfust ekki upp og áttu síðan frábæran lokakafla.

Hannover-liðið breytti stöðunni úr 18-24 í 25-25. Kai Hafner skoraði fjögur af þessum sjö mörkum en Sven-Soren Christophersen jafnaði 42 sekúndum fyrir leikslok. Það mark reyndist vera síðasta mark leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×