Skoðun

Þýskir flóttamenn í Danmörku í lok seinna stríðs

G. Jökull Gíslason skrifar
Í nýútkominni bók Ragnhildar Thorlacius um Brynhildi Georgíu Björnsson er áhugaverð umfjöllun um stöðu þýskra flóttamanna í Danmörku. Brynhildur lendir í því að þýskt barn deyr í höndum hennar þegar það fær ekki læknisaðstoð og markar það mjög afstöðu hennar gegn Dönum.

Á síðustu mánuðum seinni heimsstyrjaldarinnar flúðu mjög margir Þjóðverjar undan sókn Rauða hersins. Um 250.000 flóttamenn fóru til Danmerkur sem var þá enn hernumin af Þjóðverjum. Þýsk yfirvöld gáfu þessum flóttamönnum forréttindastöðu í Danmörku sem skapaði andúð í þeirra garð hjá Dönum. Þeim var komið fyrir í skólum, samkomuhúsum og fyrirtækjum þar sem var pláss. Ólíkt því sem er í dag þá voru þetta mestmegnis ungmenni, gamalmenni og konur. Mjög margir voru aðframkomnir enda mikill skortur á nauðsynjum í lok stríðsins.

Þetta gerðist á sama tíma og þúsundir Dana voru sendar í fanga- og útrýmingarbúðir í Þýskalandi og það litaði enn frekar afstöðu Dana til þessara flóttamanna.

Skorti flestar lífsnauðsynjar

Í lok apríl höfðu þýsk yfirvöld ekki lengur stjórn á stöðunni og flóttamennina skorti flestar lífsnauðsynjar eins og mat og læknisþjónustu. Lík voru ekki grafin en söfnuðust upp í kjöllurum og vöruhúsum.

Við uppgjöf Þjóðverja tóku dönsk yfirvöld við umsjá flóttamannanna og dreifðu þeim í minni hópa og notuðu meðal annars herbúðir sem Þjóðverjar höfðu byggt. Oft voru settar girðingar til að halda flóttamönnunum inni til að koma í veg fyrir að þeir hefðu samneyti við Dani. Í flestum búðanna var hvorki til nægur matur né læknisaðstoð. Sérstaklega til að byrja með.

Ástandið var verst rétt fyrir og eftir uppgjöf Þjóðverja. Danski læknirinn og sagnfræðingurinn Kirsten Lylloff hefur sýnt fram á að bæði danskir læknar og danski Rauði krossinn synjuðu þýsku flóttamönnunum um aðstoð. Þar réð miklu afstaða Dana til Þjóðverja en það var líka vegna skorts á sjúkragögnum og þess að meðal flóttamannanna brutust út farsóttir sem verið var að sporna við að næðu meiri dreifingu í Danmörku. Árið 1945 er talið að um 13.000 þýskir flóttamenn hafi dáið, þar af 7.000 börn yngri en 5 ára.

Breska hernámsliðið sem kom til Danmerkur tók síðan þá ákvörðun að þýsku flóttamennirnir þyrftu að vera áfram í Danmörku um skeið þar til að ástandið í Þýskalandi yrði stöðugra. Flóttamennirnir voru sendir heim til Þýskalands frá nóvember 1946 til febrúar 1949. Þýsk yfirvöld greiddu Dönum að lokum 160 milljónir danskra króna fyrir aðstoð við flóttamennina á árunum 1953 til 1958.

Hafa verður í huga við þessa lesningu að þegar þetta gerist þá er Danmörk búin að vera hernumin af Þjóðverjum í fimm ár og litaði það mjög afstöðu Dana. En það er líka áhugavert að skoða í samhengi við þá flóttamenn sem í dag koma til Evrópu frá fjarlægari löndum.




Skoðun

Sjá meira


×