Handbolti

Tuttugasti sigur Barcelona

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón Valur getur leyft sér að fagna í kvöld.
Guðjón Valur getur leyft sér að fagna í kvöld. vísir/getty
Barcelona vann auðveldan tíu marka sigur á BM. Guadalajara, 36-26, í spænsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Börsungar ríghalda í toppsætið á Spáni.

Gestirnir frá Barcelona náðu fljótlega góðu forskoti og voru komnir 12-8 yfir eftir stundarfjórðung. Þá skoruðu fjögur mörk gegn engu frá heimamönnum og leiddu svo í hálfleik 18-14.

Í síðari hálfleik var þetta leikur kattarins að músinni og heimamenn áttu aldrei mögulega í stjörnuprýtt lið gestanna. Lokatölur urðu tíu marka sigur gestanna, 36-26, sem horfa til spænska deildarmeistaratitilsins sem er innan seilingar.

Barcelona er á toppi deildarinnar með 40 stig, en þeir hafa unnið alla tuttugu leiki sína á tímabilinu. Naturhouse La Rioja er í öðru sætinu með 33 stig, en BM. Guadalajara er í tíunda sætinu með fimmtán stig.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk úr sex skotum í leiknum, en Victor Tomas og Kiril Lazarov voru markahæstir í liði Börsunga með sex mörk hvor.

Iker Antonio Marcos og Jose María Bozalongo Ruiz skoruðu sex mörk hvor fyrir heimamenn í Guadalajara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×