Skoðun

Misbeiting valds

guðmundur guðbjarnason skrifar
Óvenju litla athygli hefur vakið að í nýföllnum dómi Hæstaréttar í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans er því slegið föstu að Sérstakur saksóknari hafi brotið gegn rétti sakborninga til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar og samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis í mannréttindasáttmála Evrópu. Brotið snýr að því að á meðal málsgagna eru upptökur af símtölum og öðrum samskiptum ákærðu við aðra skömmu eftir að þeir höfðu gefið skýrslu hjá lögreglu. Þar höfðu þeir réttarstöðu sakborninga og skýlausan rétt á því að neita að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun, sem þeim var gefin að sök. Hlustun á símtöl ákærðu við þessar aðstæður var ólögleg samkvæmt dómi Hæstaréttar.

Braut vísvitandi gegn réttindum

Benedikt Bogason, þáverandi dómari við Héraðsdóm Vesturlands og núverandi hæstaréttardómari, veitti í þrígang hlerunarheimildir yfir syni mínum, Magnúsi, frá mars til maí 2010. Síðasti úrskurðurinn var kveðinn upp þann 6. maí 2010 á grundvelli skriflegrar kröfu Sérstaks saksóknara þar sem lesa má eftirfarandi: „Á næstu vikum verða teknar skýrslur af sakborningum og vitnum vegna meintrar markaðsmisnotkunar en sú rannsókn er á frumstigi.”

Einnig stendur þar: „Verulegar líkur standa til þess að þeir sem eiga aðild að umræddri háttsemi og grunur beinist að muni ræða sín í milli um sakarefnin símleiðis.“ Og jafnframt: „...þá má ætla að upplýsingar um símtöl geti skilað mikilvægum upplýsingum um atvik máls sem veruleg áhrif geta haft á framhald og árangur rannsóknanna. Slíkar rannsóknaraðgerðir hafa þegar gefið mjög góða raun við rannsókn þeirra alvarlegu efnahagsbrota sem embættið hefur til rannsóknar.“

Á þessu má sjá að Sérstakur saksóknari dylur í engu fyrirætlanir sínar um að hlera menn að loknum yfirheyrslum og misnota þannig hlerunarheimildina, eins og Hæstiréttur hefur kveðið upp úr nú. Engu að síður var þessi heimild auðfengin hjá Benedikt dómara. Þarna brást dómarinn Magnúsi syni mínum, og í framhaldinu hleraði Sérstakur saksóknari ólöglega 98 símtöl hjá Magnúsi eftir að gæsluvarðhaldi hans og yfirheyrslum lauk þar til að hlerunarheimildin rann út.

Velja sér dómara

Það var engin tilviljun að Ólafur Þór Hauksson, Sérstakur saksóknari og fyrrum sýslumaður á Vesturlandi, beindi óskum sínum um hlerunarheimildir til héraðsdóms Vesturlands en þar starfaði aðeins einn dómari, góðvinur hans Benedikt Bogason.

Í nýlegu dómsmáli gaf fyrrverandi lögreglumaður skýrslu þess efnis að Benedikt dómari hafi skrifað undir hlerunarheimild á heimili sínu og látið líta út að þinghaldið hafi farið fram í dómshúsinu við Lækjartorg. Ólafur Þór Hauksson er sagður hafa sótt það þing fyrir hönd embættisins og lagt þar fram kröfu um símhlustun ásamt greinargerð. Engin gögn eru til um að þinghaldið hafi farið fram og sú greinargerð hefur ekki fundist „þrátt fyrir mikla leit.“ Ekki þarf að fara mörgum orðum um að samkvæmt lögum skulu þvingunarráðstafanir lagðar fyrir héraðsdóm en ekki í heimahúsi þar sem engin gögn eru lögð fram. Hlýtur það að vera lágmarkskrafa til dómara að hann fari að lögum.

Hlerunarkerfi lögreglunnar

Í frétt Morgunblaðsins þann 10. nóvember sl. um hlerunarkerfi lögreglunnar, vegna rannsókna embættis Sérstaks saksóknara á bankamönnum, kemur fram að unnið sé að úrbótum á eftirliti með hlerunum. Verið væri að fara yfir framkvæmd fyrri ára og teldist sú vinna langt komin.

Haft eftir Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara að „fjöldi funda hafi verið með lögreglu til að bregðast við gagnrýni sem komið hefur fram á framkvæmd hlerana.“ Já, „fjöldi funda,“ segir Helgi Magnús, sá hinn sami og segir einnig að sú nýlunda hafi verið tekin upp í málum tengdum föllnu bönkunum að menn voru hleraðir eftir að meint brot höfðu átt sér stað! Í hliðargrein er einnig haft eftir honum „að vandinn sé ekki enn til staðar, þar sem ekki sé lengur verið að taka upp samtöl vegna brota sem áttu sér stað fyrir löngu síðan og hafi eingöngu verið gert í rannsóknum á hrunmálum sem voru um margt óvenjuleg.“

Er hann þar með að segja að réttarfarið sé einnota og hafi hentað ágætlega við rannsókn á starfsmönnum föllnu bankanna!

Ónýtur dómur

Í dómnum yfir Landsbankamönnum var sagt að ekki hafi verið notast við ólöglega fengnar hleranir við úrlausn málsins. Hvernig er hægt að komast hjá því þegar ljóst er að þær höfðu þegar haft tilætluð hughrif á bæði héraðsdóm og Hæstarétt. Er hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að yfirheyrslur og vitnaleiðslur á rannsóknarstigi voru oft byggðar að einhverju leyti á spurningum er varðaði þessar ólöglegu hleranir.

Eiga rannsakendur að komast upp með lögbrot án nokkurra afleiðinga?

Að lokum

Hvenær munu félagasamtök lögmanna ræða opinskátt um þessi álitamál hér að ofan sem og sjónarmið formanns dómsmálaráðs að eðlilegt sé að dómarar endurspegli samfélagsvitundina og taka mið af stemningunni í samfélaginu.

Hvenær munu þeir ræða dóma Hæstaréttar (sem svo er enn nefndur) sem eru skrifaðir eftir óskráðum reglum samfélagsins?

 




Skoðun

Sjá meira


×