Skoðun

Líf liggur við

Ragnheiður Davíðsdóttir skrifar
Fyrir skömmu lásum við um unga konu sem greindist með krabbamein og kvartaði sáran undan kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Meðal annars kom fram að hún hefði þurft að greiða á tíunda þúsund króna fyrir það eitt að fá að vita að hún væri með lífsógnandi sjúkdóm. Þetta dæmi er ekkert einsdæmi.

Við hjá Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk, sem greinst hefur með krabbamein, og aðstandendur þess, heyrum sögur af ungu fólki sem hreinlega stendur ekki undir þeim kostnaði sem fylgir læknis- og lyfjameðferð. Slík tilfelli eru fjölmörg og urðu meðal annars til þess að félagið stofnaði Neyðarsjóð Krafts sem úthlutar styrkjum til félagsmanna sinna til þess að standa undir hluta þess kostnaðar. Nýlega voru veittir fimm styrkir úr sjóðnum og var hver styrkur að meðaltali um 400.000 krónur. Þar er einungis um að ræða læknis- og lyfjakostnað en ljóst er að annar kostnaður er einnig verulegur, s.s. vinnutap, endurhæfing, sálfræðiþjónusta, tannlækningar og annars konar afleiddur kostnaður.

Þegar svo alvarlegur sjúkdómur sem krabbamein skýtur sér niður í fjölskyldunni hefur fólk ekkert val. Það verður að greiða þann kostnað sem hlýst af veikindunum, hvort sem það hefur efni á því eða ekki. Þess eru dæmi að fólk hefur orðið að skera niður í heimilisbókhaldinu, selja fjölskyldubílinn, taka börnin sín úr tómstundum, sleppa mat fyrir börnin í skólanum og því um líku. Líf og heilsa skipta einfaldlega mestu máli.

Forgangsröðun er kjarni málsins

Og þá erum við komin að kjarna málsins. Forgangsröðun. Ljóst er að allir þurfa einhvern tímann að forgangsraða í heimilisbókhaldinu, það er taka út alls kyns óþarfa eða minna áríðandi kostnaðarliði til að eiga fyrir þeim sem skipta meira máli. Þá kröfu gerum við til stjórnvalda þegar ekki eru til fjármunir fyrir öllum útgjöldum ríkisins. Við gerum þá skýlausu kröfu að líf og heilsa almennings gangi fyrir öllu öðru. Það er í raun svo sjálfsögð krafa að varla ætti að þurfa að hafa orð á því.

Engu að síður staðhæfa stjórnvöld að ekki sé hægt að leggja meira fjármagn í heilbrigðiskerfið en raun ber vitni – jafnvel þótt stór hluti þeirra fjármuna komi með síhækkandi greiðsluþátttöku almennings.

Kraftur gerði könnun á greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfi samanburðarlanda Íslands og komst að því að hvergi í hinum vestræna heimi er ástandið verra en hér á landi. Við höfum öll skilning á því að stjórnvöld hafa úr ákveðnu fjármagni að spila sem þarf að skipta niður á hina ýmsu útgjaldaliði í samfélaginu. Ef þeir fjármunir duga ekki fyrir þeim öllum – þarf að forgangsraða eins og í góðu heimilisbókhaldi. Það þarf einfaldlega að færa fjármagnið frá því sem minna máli skiptir, eða engu, og í það sem sem öllu máli skiptir; heilbrigðiskerfið.

Ég leyfi mér að efast um að líf liggi við að grafa göng í gegnum fjöll, reka rándýra utanríkisþjónustu eða stunda veisluhöld á vegum hins opinbera, svo örfá dæmi séu tekin af útgjöldum sem taka mætti fjármuni frá og setja í heilbrigðiskerfið. Mér er líka til efs að nauðsynlegt sé að senda ráðherra og aðra þingmenn í allar þessar utanlandsferðir. Ef mig misminnir ekki höfðu utanlandsferðir utanríkisráðherra á einhverjum tilteknum tíma kostað jafn mikið og það kostaði að kaupa lyf til að lækna fólk af lifrarbólgu-C. Við þetta verður ekki unað lengur. Peningarnir eru til en þeir þurfa að fara í það sem máli skiptir; líf og heilsu landsmanna.

Réttur sjúklinga samkvæmt lögum og mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar til að fá þá bestu læknisþjónustu sem völ er á er ótvíræður og á að ganga mun lengra en geðþóttaákvarðanir stjórnvalda sem bera fyrir sig þau rök að framlag til heilbrigðismála verði að vera innan fjárlagarammans. Ef sá rammi er of þröngur þarf einfaldlega að útvíkka hann á kostnað annarra þátta sem minna máli skipta. Líf liggur við.




Skoðun

Sjá meira


×