Erlent

ESB og Tyrkir ná saman um flóttamannamálin

Atli Ísleifsson skrifar
Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB. Vísir/AFP
Aðildarríki Evrópusambandsins og Tyrkland hafa náð saman um hvernig taka skuli á flóttamannavandanum. Samkvæmt samkomulaginu verður flóttamönnum sem koma til aðilarríkja ESB vísað aftur til Tyrklands og í skiptum fá Tyrkir fjárhagslega aðstoð og pólitískar ívilnanir.

Samkomulagið felur í sér að frá og með sunnudeginum verða allir flóttamenn sem koma til Grikklands sendir aftur til Tyrklands, verði þeim synjað um hæli. Í skiptum munu aðildarríki ESB taka við sýrlenskum flóttamönnum sem búa í Tyrklandi.

Í frétt BBC um málið segir að leiðtogar ESB-ríkja hafi fagnað samkomulaginu en Angela Merkel Þýskalandskanslari varar við að taka þurfi á ýmsum lagalegum úrlausnarefnum.

Sögulegur dagur

Þrátt fyrir að ESB-ríkin hafi ekki orðið að öllum kröfum Tyrkja þá lýsti Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, deginum sem „sögulegum“. „Í dag gerðu menn sér grein fyrir að Tyrkland og ESB deila sömu örlögum, sömu áskorunum og sömu framtíð.“

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, segir að samningurinn sé engan veginn einhver töfralausn og sé einungis einn of fjölmörgum liðum í viðbragðsáætlun sambandsins. Heimildir BBC segja að 72 þúsund sýrlenskir flóttamenn verði fluttir til aðildarríkja ESB.

Skammarlegt

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fagnaði samningnum og sagði hann fela í sér að verulega myndi draga úr fjölda flóttamanna sem halda sjóleiðina til Grikklands.

Kate Allen hjá Amnesty International gagnrýndi hins vegar samkomulagið og sagði skammarlegt að fylgjast með þjóðarleiðtogum leitast við að komast hjá lagalegum skuldbindingum sínum.

Samningurinn felur meðal annars í sér að tyrkneskir ríkisborgarar þurfi ekki vegabréfsáritun á ferðum sínum um flest aðildarríki ESB og að aukinn kraftur verði settur í aðildarumsókn Tyrklands að ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×