Skoðun

Þöggun

Pétur Haukur Jóhannsson skrifar
Ég velti því fyrir mér hve margir hugsi sig tíu sinnum um áður en þeir birta skoðanir sínar á samfélagsmiðlum, ef þær kunna að skarast á við skoðanir rétthugsandi einstaklinga. Internetið getur nefnilega virkað eins og svarthol. Þú sendir frá þér óvinsæla skoðun, og ekki aðeins hugmyndir þínar heldur þú sjálfur sogast inn í það og sundrast. Mannorðið hrökklast í burtu og öllum virðist skítsama um þig. Ég tel ekki þörf á að rökstyðja þetta með dæmum, enda vitum við öll hvernig „virkur í athugasemdum“ hagar sér.

Þetta veldur því að ekki eins fjölbreyttar skoðanir komast upp á yfirborðið. Margir veigra sér við að segja frá því sem þeim ber í brjósti, af ótta við að fá heygaffalinn upp um endaþarminn og mögulega missa einhverja rétthugsandi vini af Facebook. Margar skoðanir eru einfaldlega ekki byggðar á traustum grunni. En við viljum frekar fá þær upp á yfirborðið til að geta rökrætt þær heldur en að fólk byrgi þær inni í sér og heyri aldrei mótrök gegn þeim. Og þegar ég “tala” um mótrök, þá er ég ekki að meina persónulegar árásir.

Ástandið er orðið svo slæmt að fjölmiðlar veigra sér stundum við að segja frá öllum sannleikanum. S.b.r. kynferðisbrotin í Köln, og í fleiri borgum Þýskalands síðustu áramót, þá voru nokkrir fjölmiðlar þar í landi tregir við að fjalla um málin af ótta við að ala á hatri gegn hælisleitendum. Það er bagalegt ef fjölmiðlar eru orðnir svo meðvirkir með þessari pólitísku rétthugsun að þeir þori ekki að fjalla um það sem er að gerast.

Fólk þorir varla lengur að gagnrýna Íslam. Múhameð er ekki aðeins heilagur fyrir þá sem trúa á hann, heldur einnig fyrir þá sem hafa teygt hugtakið mannvinur það langt að það megi ekki tala illa um hann eða teikna skopmyndir af honum, því þá sé verið að ráðast á minnihlutahóp. Þú mátt svo sem teikna Jesú í allskonar stellingum, færa rök fyrir því að hann sé ekki sonur guðs en málfrelsið hættir rétt áður en röðin kemur að Múhameð spámanni.

Orðið rasisti hefur óspart verið kastað fram til þess að komast hjá óþægilegri umræðu. Ég veit ekki um betri leið til að kaffæra rökræðum heldur en að kalla mótherjann rasista. Það vill enginn fá þann stimpil á sig. Um leið og einhver fær hann, þá þarf hann að eyða tíma og orku í að sannfæra alla að hann sé ekki rasisti, því við nánari athugun er hann það oftast ekki. Það sem hefðu getað verið líflegar rökræður eru þá orðnar að einhverju allt öðru. Ég vil meina að rasista stimpillinn sé megin ástæða fyrir því að fólk þori ekki að tjá sig um ákveðin málefni.

Það er auðvitað mun þægilegra að hafa „já“ fólk í kring um sig frekar en einhverja vitleysinga sem eru ekki sammála manni. Þægilegra að þagga niður óþægileg umræðuefni frekar en rökræða. M.ö.o þá er lang best að útiloka vitleysingana algjörlega, hvernig sem er.




Skoðun

Sjá meira


×