Skoðun

Námskráin (sem ekki er til) og frumvarpið

Jakob S. Jónsson skrifar
Fyrir Alþingi liggur lagafrumvarp sem lýtur að löggildingu leiðsagnar ferðamanna. Kveðið er á um að löggilding og starfsleyfi skuli veitt „hæfum leiðsögumönnum“ og hæfnin metin út frá „viðurkenndri námskrá“.

Í frumvarpinu er „leiðsögn ferðamanna“ ekki skilgreind né gerð að vernduðu starfi. Það skiptir þó máli að greint sé á milli leiðsagnar, fararstjórnar og hópstjórnar, enda um mjög mismunandi þætti ferðaþjónustu að ræða. Það er þörf á því að skilgreina þessi hugtök til að koma megi böndum á starfsemi erlendra leiðsögumanna sem gera út erlendis frá til ferða hér á landi. Það er óviðunandi að menntun og kunnátta innlendra leiðsögumanna sé sniðgengin með því að erlendum leiðsögumönnum sé ekki gert skylt að hafa innlendan leiðsögumann sér við hlið.

Samkvæmt frumvarpinu er leyfisveiting háð því að þeir sem leyfið fá hafi lokið „leiðsögunámi hérlendis sem uppfyllir kröfur námskrár“ eða hafi haft „leiðsögu ferðamanna hérlendis að aðalstarfi í samanlagt þrjú ár, enda sýni þeir með hæfnisprófi að þeir búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að ljúka leiðsögunámi“.

Þá er leyfi háð því sem stendur í 2. gr. laga nr. 26/2010, sem varða starfsemi erlendra þegna hér á landi. Frumvarpið er því um leið að löggilda leiðsögn erlendra leiðsögumanna, hafi þeir á annað borð tilskilin leyfi frá sínu heimalandi.

Fimm skólar bjóða upp á leiðsögunám hér á landi: Leiðsöguskóli Íslands, sem heyrir undir MK, Símenntun á Akureyri, sem kennir samkvæmt samkomulagi við Leiðsöguskólann/MK, Endurmenntun Háskóla Íslands, Ferðamálaskóli Íslands og loks Keilir.

Engin námskrá í gildi

Staðan á leiðsögunámi á Íslandi er sú, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti menntamála, að engin námskrá er í gildi sem stendur; árið 2011 var námskrá um framhaldsskóla numin úr gildi og hverri námsbraut gert að senda nýja námskrá til staðfestingar ráðuneytis. Leiðsöguskóli Íslands hefur enn ekki sent tillögu að námskrá til ráðuneytis og er hún því hvorki til né í ferli.

EHÍ kennir samkvæmt námslýsingu sem fagráð leiðsögunáms hefur umsjá yfir; fagráðið hefur enga stjórnsýslustöðu og ákvarðanir þess gilda ekki sem námskrá í lagalegum skilningi. Ferðamálaskóli Íslands og Keilir kenna samkvæmt eigin námskrám en ekki samkvæmt því sem nefnt hefur verið „viðurkennd námskrá“ – sem er varla nema von fyrst engin viðurkennd námskrá um leiðsögunám er yfirhöfuð til.

Til er Evrópustaðall um leiðsögu­nám (ÍST EN 15565:2008), samþykktur af Íslands hálfu, en ekki komið til framkvæmdar. Ástæða er til að þeir skólar, sem hér eru nefndir, könnuðu hvort þeirra námsframboð standist ekki kröfur Evrópustaðalsins, bættu úr þar sem þarf, og skilgreiningarvandi á því hvað er gild leiðsögumenntun væri þar með úr sögunni.

Félag leiðsögumanna hefur um árabil ekki viðurkennt sem fagfélagsmenn aðra en þá sem lokið hafa námi frá Leiðsöguskóla Íslands/MK eða EHÍ. Ekki er ljóst á hvaða forsendum sú viðurkenning er veitt þar sem ekkert nám í leiðsögn telst viðurkennt eða löggilt frá 2011. Í lögum félagsins segir um inngöngu í fagfélagið: „Umsókn skal fylgja staðfesting leiðsöguprófs frá skóla, sem mennta- og menningarmálaráðuneytið viðurkennir og kennir samkvæmt gildandi námskrá ráðuneytisins.“

Þetta þýðir að enginn sem útskrifast hefur úr leiðsögunámi frá EHÍ er tækur í fagfélagið og ekki heldur neinn þeirra sem hafa útskrifast frá Leiðsöguskóla Íslands/MK eftir 2011 né öðrum skólum.

Hér er komið að grundvallarspurningum fyrir starfandi leiðsögumenn: Hver hefur stjórnsýsluvaldið að ákveða hvað er gilt leiðsögunám á Íslandi og út frá hvaða forsendum? Til er Starfsgreinaráð ferðamálagreina sem hefur yfirsýn yfir menntunarþarfir og menntunarmál innan ferðaþjónustunnar. Þar er sá farvegur sem svona mál ættu að vinnast gegnum.

Framundan er annasamt sumar. Félag leiðsögumanna þarf að vera tilbúið til að standa með sínu fólki og þjónusta vel. Þá verða forsendur og skilgreiningar á störfum félagsmanna að vera óumdeildar og starfsrammi félagsins skýr.




Skoðun

Sjá meira


×