Handbolti

Þetta er eitt heitasta starfið í Danmörku

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur er undir mikilli pressu í starfi sínu og verður það aftur í forkeppni Ólympíuleikanna í apríl.
Guðmundur er undir mikilli pressu í starfi sínu og verður það aftur í forkeppni Ólympíuleikanna í apríl. vísir/getty
Starf landsliðsþjálfara Danmerkur er eitt af stærstu þjálfarastörfunum þar í landi. Því stýrir Guðmundur Þórður Guðmundsson síðan sumarið 2014. Guðmundur býr einn á Jótlandi en konan hans kemur stundum með honum. Hann er því mikið á ferð og flugi á milli Íslands og Danmerkur.

„Þetta er búið að vera skemmtilegt en þetta er auðvitað rosalega krefjandi starf enda kröfurnar miklar. Við erum búnir að spila 33 leiki undir minni stjórn og vinna langflesta leikina. Aðeins tapað fimm leikjum,“ segir Guðmundur en mikilvægir leikir hafa tapast hjá liðinu sem hafa gert það að verkum að liðið hefur ekki komist í undan­úrslit á báðum þeim stórmótum sem Guðmundur hefur stýrt liðinu. Í Danmörku eru gerðar kröfur um sæti í undanúrslitum.

Sjaldan liðið jafn illa eftir mót

„Í Katar þá töpuðum við aðeins einum leik af níu. Það var auðvitað í átta liða úrslitunum gegn Spáni svo við komumst ekki í undanúrslit. Þeir skora sigurmark er tvær sekúndur voru eftir. Á EM í Póllandi lendum við í svipuðum aðstæðum. Erum að spila geysilega vel framan af móti og leikur okkar afar sannfærandi. Við erum á blússandi siglingu er við gerum jafntefli við Svía. Það var úrslitaleikurinn fyrir okkur þegar upp var staðið. Sigur þar hefði komið okkur í undanúrslit. Þetta mót var vissulega vonbrigði fyrir okkur en það er ótrúlega stutt á milli í þessu,“ segir Guðmundur en það má vel heyra á tóninum í honum að hann er ekki enn kominn yfir vonbrigðin.

„Það er varla að ég sé búinn að jafna mig. Mér hefur sjaldan liðið jafn illa og eftir þetta mót. Það helgast líka af því að maður er búinn að gera allt rétt í fyrstu fjórum leikjunum. Við vinnum svo Spánverja glæsilega í milliriðli og spilum frábærlega. Svo veldur augnablikseinbeitingarleysi því að við klúðrum þessum Svíaleik. Ég vil varla ræða það að við spilum við Þjóðverja í kjölfarið tæpum 20 tímum eftir að Svíaleiknum lýkur. Það er náttúrulega alveg galið. Ég ætla ekkert að afsaka mig þannig en það sér hver maður að slíkt fyrirkomulag gengur ekki upp. Það er út úr kú. Það væri gaman að vita hver fékk hugmyndina að þessu fyrirkomulagi.“

Guðmundur er mjög ástríðufullur þjálfari og tekur virkan þátt í leiknum eins og sjá má. Ekki síst þegar mikið er undir eins og hjá danska landsliðinu.fréttablaðið/getty
Guðmundur segir að það sé áhugaverð þróun í íþróttaheiminum þar sem verulega sé að draga saman á milli stóru og litlu liðanna.

„Ég fylgist líka með enska fótboltanum og þar er eiginlega alveg sama hver spilar við hvern. Það geta eiginlega allir unnið alla. Svona finnst mér þróunin í íþróttaheiminum vera í dag og það er stórmerkilegt.“

Þið eruð eins og leikskólabörn

Danskir fjölmiðlamenn hafa ekki tekið Guðmund neinum vettlingatökum og hann hefur fengið drjúgan skammt af gagnrýni fyrir að koma liðinu ekki í undanúrslit. Hann var á stundum ekki sáttur við gagnrýni sem hann fékk hér heima en segir það ekkert í líkingu við það sem gerist í Danmörku.

„Þið íslensku fjölmiðlamennirnir eruð bara eins og leikskólabörn í samanburði við danska kollega ykkar,“ segir Guðmundur og hlær dátt en er fljótur að verða aftur alvarlegur. „Þetta er eitt heitasta starfið í Danmörku, alveg grínlaust. Það er vegna þess að það er mikið fjallað um liðið og handbolti er mjög stór íþrótt í Danmörku. Það eru um tvær milljónir manna að horfa á leiki liðsins á stórmótum. Það hefur gengið vel hjá liðinu í gegnum tíðina og því eru gerðar miklar kröfur,“ segir Guðmundur en hvernig gengur honum að takast á við þessa pressu?

„Ég held mér hafi gengið það vel og ég reyni að vera faglegur. Ég einbeiti mér að minni vinnu og les ekki það sem er verið að skrifa. Ég hef farið þá leið að velta mér ekki of mikið upp úr skrifunum. Það er vissulega þjarmað að mér en þá er mjög mikilvægt að vinna alla leikina,“ segir Guðmundur léttur þó málið sé vissulega ekki léttvægt. Hann missti sig aðeins í viðtali eftir tapið gegn Þýskalandi í janúar enda svekkelsið mikið.

„Auðvitað verður maður stundum pirraður en ég reyni að vera hreinskiptinn í samskiptum við fjölmiðla. Ég virði þeirra starf en svo getur maður deilt um hvaða línu menn eru að taka. Ég hef alltaf reynt að svara heiðarlega og segja hlutina eins og ég sé þá.“

Það var umræða um að það ætti að reka Guðmund eftir vonbrigðin í Póllandi en af því varð nú ekki. Ef Guðmundi tekst aftur á móti ekki að koma Dönum á ÓL í forkeppninni í næsta mánuði má telja líklegt að það verði heitt undir honum. Lítur hann svo á að starfið sé undir í forkeppninni?

„Ég vil ekkert segja um það en ég segi þó að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að komast á Ólympíuleikana,“ segir Guðmundur varkár.

Guðmundur er hér í Katar eftir að hafa stýrt liði sínu til sigurs gegn Íslandi. Sérstakur leikur fyrir hann.vísir/getty
Áhuginn komið á óvart

Danska handknattleikssambandið er mun stærra en það íslenska og peningarnir sem menn hafa úr að spila þar miklu meira en hjá HSÍ.

„Það hefur komið mér á óvart hversu ofboðslega mikill áhugi er á liðinu og hversu mikil fjölmiðlaumfjöllunin er. Ég held að hvergi í heiminum sé eins mikill fjölmiðlaáhugi á handboltalandsliði og í Danmörku. Ég lít það jákvæðum augum og það er frábært að liðið fái mikla athygli,“ segir Guðmundur en er mikill munur á því að þjálfa danska og íslenska landsliðið?

„Það er ekki svo mikill munur. Það er helst í umhverfinu. Hér eru miklu fleiri fjölmiðlar og þeir eru á öllum æfingum hjá okkur. Þegar ég vann hjá HSÍ þá bar ég mikla virðingu fyrir því hvað menn lögðu á sig til að hafa umgjörðina í kringum liðið góða.“

Guðmundur var að þjálfa þýska stórliðið Rhein-Neckar Löwen áður en hann tók við danska landsliðinu.

„Að þjálfa landslið hefur sína kosti og galla. Stundum sakna ég daglegu þjálfunarinnar. Að hafa liðið í höndunum alla daga og hafa mikið um það að segja í hvaða formi leikmennirnir eru. Hafa tíma til að móta liðið. Hjá landsliði er takmarkaður tími til að móta lið og gera breytingar. Þar er maður líka dæmdur á mjög stuttum tíma. Jafnvel viku eða tíu dögum. Pressan er líka margföld að vera landsliðsþjálfari og ég tala ekki um þegar maður þjálfar eitt besta landslið heims.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×