Handbolti

Veit ég hef kvatt landsliðið þrisvar eða fjórum sinnum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Andersson á HM í Katar. Hann hætti eftir þá keppni en er nú kominn aftur.
Andersson á HM í Katar. Hann hætti eftir þá keppni en er nú kominn aftur. vísir/getty
Sænska handboltagoðsögnin Kim Andersson getur ekki hætt að spila fyrir landsliðið. Hann snýr alltaf aftur.

Þessi 33 ára örvhenta skytta hefur nokkrum sinnum hætt með landsliðinu áður og síðast eftir HM í Katar. Hann er nú í landsliðshópi Svía sem tekur þátt í forkeppni Ólympíuleikanna.

Hann er búinn að skora 776 mörk í 219 landsleikjum og ætlar að bæta við þær tölur í næsta mánuði þó svo hann lofi því ekki að halda áfram eftir forkeppnina.

„Ástæðan fyrir því að ég er kominn aftur er sú staðreynd að ég er í góðu formi. Andlega sem líkamlega. Því fannst mér eðlilegt að segja já þegar að kallið kom. Ég veit að ég hef kvatt landsliðið þrisvar eða fjórum sinnum áður en það hefur aðallega verið út af meiðslum. Eftir HM í Katar var öxlin á mér handónýt,“ sagði Andersson en öxlin á honum hefur náð fínum bata. Hann var nánast hættur að skjóta á markið nema í neyð en það hefur nú breyst.

„Ég óttast ekki að öxlin á mér verði aftur ónýt. Ég varð að byrja að skjóta aftur því það var lítil ógn í mér án skota. Þá var alltaf nóg að koma í veg fyrir sendingaleiðirnar. Það er mjög ánægjulegt að geta skotið aftur á markið og verið verkjalaus.“

Andersson yfirgaf Kolding síðasta sumar og fór heim til Ystad.

„Ég sakna Kolding og fylgist vel með liðinu. Það hefur aftur á móti verið frábært að koma heim til Ystad þar sem fjölskylda mín og vinir eru. Þetta hefur alltaf verið mitt félag og hér er gott að vera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×