Erlent

Þörfin aldrei brýnni

Birta Björnsdóttir skrifar
Í mars árið 2011 brutust út óeirðir í Sýrlandi eftir að vopnuð lögregla reyndi að brjóta á bak aftur mótmæli gegn harðræði yfirvalda á nokkrum ungmennum sem ásakaðir voru fyrir að krassa áróður á veggi skóla. Nú fimm árum síðar logar ófriðarbálið enn með afskiptum alþjóðasamfélagsins og uppgangi samtakanna sem kenna sig við íslamska ríkið.

Ekki þarf að fjölyrða um áhrif átakanna á íbúa landsins og börn í Sýrlandi eru þau sem öðrum fremur þjást vegna stríðsátakanna. Í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem kynnt var fyrr í dag sést svart á hvítu hvað ástandið er alvarlegt.

„Þetta er ansi dapurleg lesning en skýrslan er yfirlit yfir stöðu barna eftir fimm ára stríð í Sýrlandi,“ segir Héðinn Halldórsson, upplýsingafulltrúi UNICEF í Líbanon.

Héðinn Halldórsson, upplýsingafulltrúi Unicef í Líbanon.
„Það sem við getum í fljótu bragði séð er að öll þróun í landinu hefur tekið risastórt stökk aftur í tímann, um eina fjóra áratugi. Við metum stöðuna þannig í dag að 80% sýrlenskra barna þurfi aðstoð af einhverju tagi.“

Aðstoðin er margþætt, líkt og vandi sýrlenskra barna. Á meðan mörg þurfa aðstoð í formi matar, fatnaðar og húsaskjóls þarf að vernda önnur frá nauðungarhjónaböndum, vinnuþrælkun og hermennsku. Þá hafa starfsmenn UNICEF lagt hvað mesta áherslu á að tryggja börnum menntun en fyrir því eru tvær ástæður.

„Af því að öll börn eiga rétt á menntun. En svo eru þetta líka börnin sem eiga á einhverjum tímapunkti að byggja landið upp þegar stríðinu lýkur. Ef börnin hafa ekki hlotið neina menntun erum við í ansi slæmri stöðu,“ segir Héðinn.

Þau börn sem ganga í skóla í Sýrlandi eru langt því frá óhult. Í fyrra létust 150 börn í skólanum eða á leið sinni milli heimilis síns og skólans. Þriðjungur barna í Sýrlandi þekkir ekki annað en stríð og hafa 2,4 milljónir barna lagst á flótta síðan stríðið braust út.

„Neyðin hún hefur líklegast aldrei verið meiri og þörfin aldrei brýnni. Það sem Íslendingar geta gert til að sýna að þeim standi ekki á sama er meðal annars að taka þátt í gjörningi sem UNICEF stendur fyrir í Reykjavík á morgun. Eða að senda orðið STOPP með sms-i í númerið 1900 og veita þannig UNICEF fjárstuðning til að halda áfram að hjálpa börnum í Sýrlandi í neyð,“ segir Héðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×