Handbolti

„Þú færð kannski bara eitt símtal frá Kiel á ævinni“

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Dener Jaanimaa í leik með Hamburg gegn Kiel.
Dener Jaanimaa í leik með Hamburg gegn Kiel. vísir/getty
Eistinn Dener Jaanimaa hefur komið sterkur inn í lið Kiel síðan Alfreð Gíslason fékk hann í sínar raðir í janúar.

Dener Jaanimaa var einn margra leikmann sem varð atvinnulaus þegar HSV Hamburg fór á hausinn, en þessi öfluga örvhenta skytta var með nokkur járn í eldinum þegar Kiel hringdi.

„Þú færð kannski bara eitt símtal frá Kiel á ævinni þannig ég varð að grípa þetta tækifæri,“ segir Dener Jaanimaa í viðtali við heimasíðu Meistaradeildarinnar.

Eistinn fékk samning út leiktíðina, en Alfreð er í meiðslavandræðum hjá Kiel. Steffen Weinhold meiddist á EM og gæti verið frá út leiktíðina og þá eru þeir Patrick Wiencek og Rene Toft Hansen úr leik.

„Þar sem við í HSV vorum ekki í Evrópukeppni mátti ég spila í Meistaradeildinni. Það hjálpaði mér líklega,“ segir Jaanimaa.

Hann hefur áður verið á mála hjá Íslendingaliðunum Aue og Eisenach. Uppgangur hans hefur verið hraður og nú er hann kominn á toppinn.

„Fyrir nokkrum vikum var ég atvinnulaus en nú er ég að berjast um þýska meistaratitilinn og í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Þetta er alveg ótrúlegt. Kiel er mjög sérstakt félag fyrir þá sem fylgjast með handbolta,“ segir Dener Jaanimaa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×