Innlent

Jómfrúin og Snaps vilja vera undir einum hatti

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Snaps við Óðinstorg og Jómfrúin í Reykjavík hyggja á samstarf en bíða samþykkis Samkeppniseftirlitsins.

„Þetta er í bígerð, við höfum verið að stinga saman nefjum og bíðum endanlegrar niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins,“ segir Sigurgísli Bjarnason, annar stofnenda Snaps. Snaps var opnaður árið 2012 af þeim Sigurgísla og Stefáni Melsted. Jómfrúin fagnar 20 ára afmæli í ár og eigendur staðarins eru Jakob Einar Jakobsson og Birgir Bieltvedt.

Sigurgísli segir standa til að félögin að baki stöðunum verði áfram rekin hvort í sínu lagi en sameinist undir einum hatti þar sem leiðandi fjárfestir er eignarhaldsfélagið, Eyja fjárfestingafélag ehf. Það félag er í eigu Birgis og Eyglóar Kjartansdóttur. Breytingarnar muni ekki hafa áhrif á starfsfólk eða matar­gerð nema að því leyti að rekstur beggja staða verði efldur.

„Félögin sameinast undir einum hatti en staðirnir verða reknir sér, við viljum halda í sérkenni þeirra en efla þá báða. Það verða engar breytingar í matargerðinni, við eigum svipaðan kúnnahóp og höfum einnig líka sýn á matargerð. Jakob er öllu vanur í Jómfrúnni og hefur verið þar í mörg ár,“ segir Sigurgísli.

Að sögn Sigurgísla verða hann og Stefán áfram á Snaps og nýta krafta sína og sérþekkingu. Byggja eigi báða staði enn frekar upp.

„Hvernig það verður gert verður að koma í ljós á næstu vikum en nú er til dæmis opið á Jómfrúnni á kvöldin, fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöld,“ segir Sigurgísli.

Stefán segir þau gildi sem hann hefur haft að leiðarljósi í matargerð enn höfð í heiðri. „Við höfum alltaf verið með einfaldan mat á matseðlinum en lagt allt í gæðin. Við gerum matinn frá grunni og styttum okkur ekki leið í matargerðinni. Við höldum því áfram.“

Snaps rekur einnig elstu smurbrauðsþjónustu landsins, Brauðbæ, sem hefur verið starfandi síðan árið 1965. „Við sjáum tækifæri í því að efla veisluþjónustuna, segir Stefán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×