Handbolti

Við erum öll mjög meðvituð um mikilvægi leiksins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ágúst og stelpurnar okkar þurfa tvo sigra gegn Sviss.
Ágúst og stelpurnar okkar þurfa tvo sigra gegn Sviss. Fréttablaðið/Pjetur
Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í handbolta mæta Sviss ytra á morgun í þriðja leik liðsins í undankeppni EM 2016 sem fram fer í Svíþjóð í desember. Íslensku stelpurnar eru með bakið upp við vegg eftir töp gegn Frökkum og Þjóðverjum í fyrstu tveimur leikjunum, en vinni Ísland ekki Sviss úti á morgun og heima á sunnudaginn getur liðið sama og kvatt þriðja sætið. Þriðja sætið í einum riðli af sjö gefur sæti á Evrópumótinu sjálfu.

„Við erum meðvituð um mikilvægi leiksins en við reynum að einbeita okkur að undirbúningi fyrir þennan leik á morgun [í dag],“ segir Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari, í viðtali við Fréttablaðið.

Þjálfarinn segir að æfingar hafi gengið vel síðan liðið mætti til Sviss á mánudaginn. Hann finni fyrir miklu meiri stígandi á æfingum stelpnanna.

„Við þurfum að taka þetta með okkur inn í leikinn og spila ákafan og þéttan varnarleik. Það eru alltaf okkar grunnstoðir. Við þurfum svo að ná upp öguðum og góðum sóknarleik, halda góðu flæði og fá einhverjar opnanir,“ segir Ágúst.

Ísland og Sviss þekkjast vel en á síðasta ári mættust þau þrisvar sinnum í æfingaleikjatörn ytra.

„Svissneska liðið er mjög svipað núna. Það spilar aggressíva 3-3-vörn og er með líkamlega sterka leikmenn. Þær eru hreyfanlegar og vinna vel án bolta í sókninni. Við verðum að skila okkur vel til baka og passa öfluga skyttu hjá þeim og línumann sem er mjög góður,“ segir Ágúst.

Svissneska liðið fékk einnig skelli gegn Frakklandi og Þýskalandi, en Ísland og Sviss eru álíka sterk. Fjögur stig verða að nást í þessum tveimur leikjum gegn Sviss og hefst baráttan ytra á morgun.

„Við erum að undirbúa okkur fyrir hnífjafna leiki. Við það miðast okkar undirbúningur. Við vitum alveg að við þurfum að vinna en við einbeitum okkur bara að því að vera tilbúin í þennan leik,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×