Fótbolti

Heimir um Hjört: Sorglegt ef að þetta er eins slæmt og þetta lítur út núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjörtur Hermannsson í baráttunni í Aþenu í kvöld.
Hjörtur Hermannsson í baráttunni í Aþenu í kvöld. Vísir/AFP
Hjörtur Hermannsson var í byrjunarliði A-landsliðs Íslands í fyrsta sinn í kvöld þegar Ísland vann 3-2 endurkomu sigur á Grikkjum í Aþenu.

Fyrsti byrjunarliðsleikur Hjartar endaði þó ekki vel því hann þurfti að yfirgefa völlinn í lokin. Íslenska liðið var þá búið með skiptingarnar og spilaði því manni færri síðustu mínúturnar.

Heimir Hallgrímsson, annar þjálfari íslenska landsliðsins, óttast að þetta gætu verið slæm meiðsli fyrir þennan 21 árs leikmann.

„Þetta virðist vera eitthvað alvarlegt. Sennilega hefur eitthvað rifnað í festum við nárann. Það er sorglegt ef að þetta er eins slæmt og þetta lítur út núna," sagði Heimir Hallgrímsson um meiðsli Hjartar.

Hjörtur hefur verið hjá PSV Eindhoven frá 2013 en var á dögunum lánaður til sænska liðsins IFK Gautaborg.

„Hann stóð sig vel núna og ef að þetta verður eins slæmt og þetta lítur út fyrir að vera þá er þetta fyrst og fremst leiðinlegt fyrir hann,  fyrir okkur og fyrir liðið sem var að fá hann til þess að fá að byrja að spila," sagði Heimir.

Hjörtur ætlaði að nota þetta tímabil til að koma sér í gang og fá að spila en nú gæti verið bið á því reynist meiðslin vera það alvarleg.

„Hann er búinn að bíða eftir því að fá að spila með alvöru klúbbum og það er leiðinlegt ef að hann missir af því," sagði Heimir. Meiðslin koma líka í veg fyrir að hann eigi möguleika á því að vinna sér sæti í íslenska EM-hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×