Handbolti

Löwen úr leik eftir tap á heimavelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Löwen er úr leik.
Löwen er úr leik. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen er úr leik í Meistaradeild Evrópu í handbolta eftir tveggja marka tap fyrir Zagreb, 29-31, á heimavelli í kvöld.

Löwen vann fyrri leikinn í Króatíu, 23-24, og fór því með gott veganesti inn í leikinn í kvöld. Það dugði þó ekki til.

Ljónin frá Mannheim byrjuðu leikinn vel og náðu í tvígang fimm marka forystu í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 15-13, Löwen í vil.

Heimamenn voru áfram með yfirhöndina í seinni hálfleik og þegar 15 mínútur voru til leiksloka kom Uwe Gensheimer Löwen þremur mörkum yfir, 24-21, og munurinn því fjögur mörk samanlagt.

En þá fór að halla undan fæti hjá Löwen á meðan Zagreb óx ásmegin. Króatarnir breyttu stöðunni úr 26-25 í 26-28 og unnu að lokum tveggja marka sigur, 29-31. Zagreb vann því einvígið, samanlagt 54-53.

Hvorki Alexander Petersson né Stefán Rafn Sigurmannsson komu við sögu í kvöld en Andy Schmid var markahæstur í liði Löwen með sjö mörk.

Fyrr í dag tryggði Flensburg sér sæti í 8-liða úrslitum með eins marks sigri, 31-30, á Montpellier á heimavelli. Þýska liðið vann einvígið, samanlagt 59-57.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×