Enski boltinn

Af bekknum hjá Leicester í enska landsliðið á þremur árum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vorið 2013 hefðu eflaust fáir búist við því að Kane, Vardy og Drinkwater væru allir í enska landsliðinu þremur árum seinna.
Vorið 2013 hefðu eflaust fáir búist við því að Kane, Vardy og Drinkwater væru allir í enska landsliðinu þremur árum seinna. vísir/getty
Hvað er merkilegt við varamannabekkinn hjá Leicester City í tveimur umspilsleikjum gegn Watford um sæti í ensku úrvalsdeildinni vorið 2013?

Jú, þar sátu þrír leikmenn enska landsliðsins í dag; Jamie Vardy, Harry Kane og Danny Drinkwater.

Vardy og Kane skoruðu báðir í 2-3 sigri Englands á Þýskalandi í vináttulandsleik í Berlín í gær. Drinkwater sat hins vegar allan tímann á bekknum en búist er við því að hann fái að spreyta sig gegn Hollandi á þriðjudaginn og leiki þar með sinn fyrsta landsleik.

Sjá einnig: Vardy fyrsti Leicester-maðurinn í 31 ár sem skorar fyrir England

Vardy kom ekkert við sögu í áðurnefndum umspilsleikjum 2013 en hann var þá á sínu fyrsta tímabili hjá Leicester eftir að hafa komið frá utandeildarliði Fleetwood Town.

Drinkwater og Kane komu inn á sem varamenn í báðum leikjunum gegn Watford sem Leicester tapaði, 3-2 samanlagt.

Drinkwater var á þessum tíma á sínu öðru tímabili hjá Leicester en félagið keypti hann af Manchester United í janúar 2012. Hann hefur síðan þá leikið 166 leiki fyrir Leicester og skorað 12 mörk.

Kane var hins vegar í láni hjá Leicester frá Tottenham vorið 2013 en framherjinn öflugi lék 13 leiki með Refunum og skoraði tvö mörk. Þetta var í síðasta sinn sem Spurs lánaði Kane en hann sló svo eftirminnilega í gegn með liðinu á síðasta tímabili og skoraði 31 mark í öllum keppnum.

Knattspyrnustjóri Leicester á þessum tíma var Nigel Pearson en hann kom liðinu upp í úrvalsdeildina vorið 2014, hélt því svo uppi áður en hann var látinn taka pokann sinn síðasta sumar.

Á myndinni hér að ofan má sjá Pearson ásamt Kane, Vardy og Drinkwater á bekknum hjá Leicester fyrir þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×