Handbolti

Kiel tapaði fyrri leiknum með fjórum mörkum í Ungverjalandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Gíslason var ekki ánægður með leikinn í dag.
Alfreð Gíslason var ekki ánægður með leikinn í dag. vísir/getty
Kiel tapaði fyrri leiknum gegn Pick Szeged frá Ungverjalandi með fjögurra marka mun, 33-29, í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Heimamenn voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16-14, en Kiel kom sterkt inn í seinni hálfleik og komst yfir, 24-22, þegar þrettán mínútur voru búnar.

Ungverska liðið náði aftur völdum á leiknum, skoraði fjögur mörk í röð og breytti stöðunni í 26-24. Szeged var svo sterkara á lokasprettinum og innbyrti sterkan fjögurra marka sigur.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hafa verk að vinna á heimavelli í seinni leiknum eftir viku og þurfa þar fimm marka sigur til að komast áfram.

Marko Vujin var markahæstur Kiel í kvöld með sjö mörk en Joan Canellas skoraði sex mörk úr sex skotum og Ilija Brozovic fimm mörk úr fimm skotum af línunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×