Innlent

340 þúsund króna útgjöld á rúmu ári

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu á Íslandi hefur á síðustu þremur áratugum nær tvöfaldast og greiða sjúklingar nú 20 prósent af öllum heilbrigðisútgjöldum. Kona sem nýlega gekk í gegnum krabbameinsmeðferð greiddi þrjúhundruð og fjörtíu þúsund krónur á rúmu ári vegna meðferðarinnar.

Í skýrslu ASÍ um kostnað sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu sem kom út í dag kemur fram að heilbrigðisútgjöld heilmila hafi vaxið mun hraðar en útgjöld hins opinbera undanfarna áratugi. Auknum beinum útgjöldum sjúklinga fylgir sú hætta að kostnaður verði hindrun á aðgengi að nauðsynlegri þjónustu fyrir ákveðna hópa, en samkvæmt nýjum tölum Eurostat hafa um þrjú prósent Íslendinga ekki sótt sér nauðsynlega læknisþjónustu vegna kostnaðar en innan við 0,5 prósent á hinum Norðurlöndunum.

Í skýrslunni eru tekin raunveruleg dæmi um kostnaðarþátttöku sjúklinga á síðustu árum sem hleypur í mörgum tilfellum á hundruð þúsunda.

Það þekkir Ingveldur Geirsdóttir af eigin raun en hún greindist með brjóstakrabbamein síðla árs 2014.

„Þegar ég tók saman nú nýverið það sem ég er búin að greiða á tæpu einu og hálfu ári, nánast bara árið 2015, það eru 340 þúsund. Eingöngu sú þjónusta sem ég þurfti að sækja á Landspítalann. Það eru læknisheimsóknir, rannsóknir og sjúkraþjálfun. Þegar maður fór að taka þetta saman þá kom upphæðin á óvart. Maður er alin upp við það að hér sé ókeypis heilbrigðisþjónusta, eða svona nánast, en svo kemur í ljós að svo er ekki,“ segir Ingveldur.

Ekk­ert raun­veru­legt þak er á heild­ar­kostnaði sjúk­linga inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins og því eru fjárhagsáhyggjur oft fylgifiskur alvarlegra veikinda. Ingveldur segir það ekki í lagi. Nauðsynlegt sé að setja þak á kostnað sjúklinga.

„Ég er ekki búin. Ég er ennþá í eftirliti og á eftir að fara í brjóstauppbyggingu sem er heljarinnar aðgerð og það er ýmislegt annað sem á eftir að koma inn í. Ég gerði ráð fyrir að þurfa að borga eitthvað, sem er alveg eðlilegt, en ekki svona mikið. Þær konur sem greinast með brjóstakrabbamein á eftir mér eiga ekki að þurfa að greiða þessa upphæð,“ segir Ingveldur Geirsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×