Erlent

David Cameron opnar bókhaldið

Birgir Olgeirsson skrifar
David Cameron.
David Cameron. Vísir/Getty
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, borgaði um 76 þúsund pund í skatt af 200 þúsund pundum sem hann hafði í tekjur frá árinu 2014 til ársins 2015. Þetta kemur fram í upplýsingum sem forsætisráðherrann hefur opinberað í skugga gagnrýni sem hann hefur fengið á sig fyrir að hafa hagnast á aflandsfélagi sem faðir hans, Ian Cameron, átti í skattaskjóli.

Í íslenskum krónum borgaði Cameron því um 13 milljónir í skatt af 34 milljónum sem hann hafði í tekjur, sé miðað við gengi dagsins í dag, á þessu tímabili.

Cameron hefur beðist afsökunar á því að hafa ekki greint frá eign sinni í aflandsfélagi föður síns og viðurkenndi að hann hefði getað gert betur þegar kemur að því að greina frá fjárhagslegum hagsmunum sínum. Hann hélt því þó fram að hafa ávallt greitt skatt af öllum þeim tekjum sem hann hafði af fyrirtækinu.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC segir Cameron hafa tilkynnt um stofnun nýs aðgerðahóps sem á að rannsaka ásakanir um skattaundanskot breskra ríkisborgara.

Í upplýsingunum sem Cameron hefur opinberað kemur fram að hann og eiginkona hans, Samantha Cameron, högnuðust um 19 þúsund pund, sem nemur um 3,2 milljónum íslenskra króna, vegna sölunnar á hlut þeirra í aflandsfélagi föður Camerons, Blairmore Holdings, árið 2010.

David Cameron gaf upp 9.500 pund af þeim söluhagnaði til skatts.

Upplýsingar um tengsl Camerons við þetta félag fengust í gegnum Panama-gögnin. Þar var að finna nafn föður hans, Ian Cameron, sem hafði verið í viðskiptum við lögmannsstofuna Mossack Fonseca þegar hann stofnaði aflandsfélagið Blairmore Holdings.

Cameron hafði lofað að opinbera gögn um fjármál sín til ársins 2012 en gekk lengra og opinberaði bókhald sitt sem nær yfir síðastliðin sjö ár, eða frá árinu 2009.


Tengdar fréttir

Cameron stendur höllum fæti vegna mótmælanna á Íslandi

Þúsundir mótmælenda komu saman í Lundúnum í dag til að krefjast afsagnar David Cameron forsætisráðherra landsins vegna tengsla hans við skattaskjól. Stjórnmálafræði-prófessor segir Cameron standa höllum fæti í Bretlandi vegna atburða síðustu daga og mótmælanna á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×