Skoðun

Heiðarleiki og hagur fleiri í forgrunn

Hermundur Sigmundsson skrifar

Undanfarna daga hefur mikið verið rætt í fjölmiðlum um ýmis mál sem tengjast spillingu, siðleysi og vöntun á heiðarleika sem virðast einkenna íslensk stjórnmál á Íslandi í dag. Þær eru með ólíkindum þær upplýsingar sem komu fram í Kastljósi sunnudaginn 3. apríl að þrjá íslenska ráðherra, þar á meðal formenn beggja stjórnarflokkanna og forsætisráðherra landsins, sé hægt að tengja við starfsemi sem má telja að sé á ‘gráu svæði´.



Ef slíkt hefði átt sér stað í Skandinavíu hefðu þessir aðilar þurft að segja af sér embætti og hætta öllum afskiptum af stjórnmálum. En hvað skeður á Íslandi. Forsætisráðherra stígur til hliðar, en ákveður að halda sinni formennsku áfram og einnig að halda áfram sem óbreyttur þingmaður eins og ekkert hafi í skorist. Þar að auki velur hann sinn eftirmann og nýjan ráðherra inn í ríkisstjórn.



Formaður hins stjórnarflokksins lætur sem ekkert hafi gerst í sambandi við hann sjálfan, hann virðist ekkert muna eftir hlutum sem eru meira en 6-7 ára gamlir. Hann ætlar alla vega ekki að taka ábyrgð og segja af sér sem hann náttúrlega hefði átt að gera. Þingmenn þessara tveggja flokka virðast ekki heldur ætla að taka ábyrgð og segja frá að þeir munu ekki líða slíkt innan síns flokks.



NEI – ekkert heyrist í þeim heldur. Þeir styðja sína formenn þrátt fyrir upplýsingar um siðleysi, skort á heiðarleika og að þeir hafi verið á ´gráu svæði´, sem áhrifamenn í pólitík ættu ekki að vera á.



HVERNIG GETUR SLÍKT GERST?



Jú, svarið við þessu er að það má segja að stjórnmál á Íslandi séu spillt og siðlaus. Látum heiðarleika vera markmið númer eitt í íslenskum stjórnmálum. En þá þurfa allir stjórnmálaflokkar að ´hreinsa´ til í sínum herbúðum. Þeir einstaklingar sem hafa verið á ´gráu svæði´ geta því miður ekki tekið þátt í stjórnmálum þar sem siðgæði, heiðarleiki, virðing og tillitsemi verði í hávegum höfð. Við erum um 330.000 íbúar þessa lands, með réttri skiptingu okkar miklu auðlinda ættum við öll að geta haft það gott. Setjum heiðarleika og hag fleiri í forgrunn.




Skoðun

Sjá meira


×