Handbolti

Aron: Verðum að halda standard hjá landsliðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron á æfingunni í kvöld.
Aron á æfingunni í kvöld. vísir/vilhelm
„Það eru margir búnir að spyrja mig síðustu daga hvernig mér lítist á Geir,“ segir Aron Pálmarsson en hann var þá að gera sig kláran fyrir fyrstu æfinguna undir stjórn Geirs Sveinssonar, nýráðins landsliðsþjálfara.

„Mér líst bara vel á hann. Mér finnst þetta vera góð ráðning og er mjög spenntur að vinna með honum. Ég get samt lítið sagt enda þekki ég hann eiginlega ekki neitt. Ég ber samt virðingu fyrir honum enda var þetta maður sem átti frábæran feril. Ég er spenntur fyrir þessu.“

Aron lék í Þýskalandi er Geir var að þjálfa Magdeburg í þýska boltanum en segist samt lítið hafa fylgst með honum.

„Ég var ekki mikið að fylgjast með öðum en hann gerði frábæra hluti með Magdeburg. Ég vona að Geir komi með jákvæða strauma inn í landsliðið. Við þurfum á því að halda eftir smá niðursveiflu. Það þýðir ekki að hugsa um það heldur verðum við að horfa fram á veginn. Ég hef enga trú á öðru en að þetta verði upp á við hjá okkur núna.“

Landsliðsþjálfaraparið Geir og Óskar Bjarni á æfingunni í kvöld.vísir/vilhelm
Síðustu tvö stórmót hjá landsliðinu hafa verið vonbrigðamót og þarf að halda vel á spilunum í kjölfarið.

„Ég held að það eigi eftir að ganga vel. Við höfum margir rætt saman eftir EM í Póllandi. Það eru allir sammála því að koma jákvæðir til baka. Við erum með það gott lið að við eigum að vera ofarlega. Ég vil halda þessum standard í landsliðinu,“ segir Aron alvarlegur.

„Það eru allir að tala um kynslóðaskipti og allt það. Þá vil ég líka að þessir ungu menn sem eru að koma geri sér grein fyrir því hversu hár standard er í liðinu. Rétt eins og þegar ég kom inn í liðið árið 2008 og þá var liðið í heimsklassa. Það var geggjað koma inn í það og við verðum að halda því. Ég hef engar áhyggjur af öðru en að okkur takist það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×