Skoðun

Fyrirmyndardagurinn - atvinna fyrir alla

Gissur Pétursson skrifar
Vinnumálastofnun stendur í dag 8. apríl fyrir skipulagningu Fyrirmyndardagsins í þriðja skiptið. Fyrirmyndardagurinn er átak þar sem leitað er til fyrirtækja og stofnana og þau beðin um að opna vinnustaði sína í einn dag fyrir heimsóknum atvinnuleitenda með skerta starfsgetu. Með því móti geta einstaklingarnir kynnst vinnustöðum og verklagi þar sem leitt getur til atvinnu síðar. Þetta hefur orðið raunin í allmörgum tilvikum í kjölfar fyrirmyndardaganna sem hafa verið haldnir og reynsla stofnunarinnar af þessu átaki því verið afar góð.

Vinnumálastofnun tók nú um síðustu áramót alfarið við yfirstjórn atvinnumála fatlaðs fólks og endurskipulagning og mótun samskiptaleiða við fyrirtækin í landinu, stofnanir ríkis og sveitarfélaga stendur nú yfir. Það er von okkar að með þessu verði þjónustan í málaflokknum skilvirkari og að fleiri komist út á vinnumarkaðinn.

Ótvírætt er lykillinn að því að ná árangri í því að auka atvinnuþátttöku þeirra sem búa við skerta starfsgetu að eiga góðan aðgang að vinnustöðunum í landinu. Fyrirmyndardagurinn hefur reynst góð aðferð til að styrkja þetta samstarf og fyrirtækjum sem taka þátt fer fjölgandi og framsýni þeirra og samstarfsvilja ber að þakka.

Vinnumálastofnun á í víðtæku samstarfi við systurstofnanir sínar á evrópskum vettvangi. Vikunna sem nú er að líða þ.e. 4. – 8. apríl eru opinberar vinnumiðlunarstofnanir í Evrópu að skipuleggja sk. Atvinnurekendadaga þar sem stofnanirnar skipuleggja átaksverkefni sem miða að því styrkja samstarf sitt og þjónustu við fyrirtækin í sínum löndum. Vinnumálastofnun leggur Fyrirmyndardaginn undir þetta verkefni enda tilgangurinn sá sami.

Vinnumálastofnun telur að lykillinn að því að lifa innihaldríku lífi sé að vera virkur á vinnumarkaði. Bætt atvinnuástand og aukin eftirspurn eftir vinnuafli eru kjöraðstæður til að auka þátttöku allra sem starfsgetu hafa til virkni. Þátttakendur í Fyrirmyndardeginum í dag eru að stuðla að því.




Skoðun

Sjá meira


×